25.11.2007 16:20

Sunnudagur, 25. 11. 07.

Enn er sólbjart en frekar kalt hér í Boston. Hvar sem komið er hljóma jólalög og jólaskreytingar serja svip á borgina. Eftir þakkargjörðardaginn, sem var á fimmudag, er jólatíðin hafin hér í Bandaríkjunum.

Starfsumhverfi okkar þingmanna er skrýtið og sannaðist mér enn í morgun, þegar ég skoðaði vefsíður fréttamiðla. Þar stóð á ruv.is:

Ráðuneyti gagnrýnir frumvarp Björns

Ég vissi, að nú hlyti eitthvað meira en lítið að vera á ferðinni, úr því að eitthvert frumvarp væri kennt við mig með nafni, ekki einu sinni embættisheiti. Það er ekki gert nema fréttamenn telja sig komast í feitt.

Þegar ég las áfram sá ég, að í raun var þetta engin frétt. Visað er í umsögn fjármálaráðuneytis með frumvarpi til laga um meðferð sakamála, þar sem bent er á, að í fjálörgum ársins 2008 sé ekki gert ráð fyrir útgjöldum vegna nýs embættis héraðssaksóknara.

Frumvarpið var ekki fullbúið fyrr en frestur ráðuneyta til að skila tillögum til útgjalda á fjarlögum var liðinn auk þess sem frumvarpið, sem er meira en 200 blaðsíður í þingskjali getur hæglega verið til meðferðar á fleiri þingum en því, sem nú situr. Þá er eins víst, að frumvarpið taki breytingum í meðförum alþingis, til dæmis á þann veg, að gefinn verði ákveðinn tími til að stofna hið nýja embætti eins og gert var, þegar embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kom til sögunnar.

Fréttin í þessu máli er ekki sú, að óvist sé um útgjöld á árinu 2008 vegna embættisins heldur hitt, að fjármálaráðuneytið hafi yfirleitt séð ástæðu til að árétta þessa algildu reglu í umsögn sinni um frumvarpið - það liggur í augum uppi, að engin útgjöld eru ákveðin á vegum ríkisins nema með fjárlögum.

Að ruv,is breyti umsögn fjármálaráðuneytis um almennar leikreglur í sérstaka  gagnrýni á frumvarp er í sjálfu sér nýmæli. Spunasíðan eyjan.is spinnur auðvitað þráðinn, eftir að ruv.is kom henni á bragðið.