15.11.2007 6:10

Fimmtudagur, 15. 11. 07.

Í hádeginu hitti ég stjórn Sýslumannafélags Íslands á fundi og ræddum við sameiginleg viðfangsefni. Það er samdóma álit allra, að flutningur verkefna úr dóms- og kirkjumálaráðuneyti til sýslumanna eða sameining verkefna undir stjórn sýslumanns, eins og gert var með Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar á Blönduósi hafi skilað mjög góðum árangri.

Ég er undrandi á því, að fleiri ráðuneyti skuli ekki hafa farið að fordæmi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og falið sýslumönnum að sinna sérgreindum verkefnum. Við embættin starfa lögfræðingar með áhuga á úrlausn stjórnsýsluverkefna auk samstarfsmanna, sem sinna verkefnum sínum af kostgæfni og eru flestir með langan starfsaldur, mikla reynslu og þekkingu á heimabyggð sinni.