Miðvikudagur, 21. 11. 07.
Í gærkvöldi mælti ég fyrir fjórum lagafrumvörpum á alþingi, þar á meðal frumvarpi um meðferð sakamála og má skoða framsöguræðu mína hér.
Fjölmiðlafrásagnir af þessu mikla frumvarpi, en þingskjalið er rúmar 200 blaðsíður, koma mér á óvart, því að þar er staldrað við þann hluta af óhefðbundnum rannsóknaraðferðum lögreglu, sem byggjast á notun eftirfararbúnaðar og hlerunum. Er skrýtið, að þetta þyki sérstaklega fréttnæmt, þar sem í frumvarpinu er verið að lögfesta reglur, sem hafa verið við lýði án athugasemda dómara. Hið nýja í málinu er, að verið er að lögfesta reglurnar.
Í 24 stundum er rætt við Hörð Helgason héraðsdómslögmann, sem spyr af þessu tilefni, hversu langt stjórnvöld ætli að ganga í því að skerða frelsi hins almenna borgara. Sér hann þá leið helsta út úr vandanum að draga úr bönnum gegn fíkniefnum.
Í morgunfréttum hljóðvarps ríkisins var rætt við Atla Gíslason þingmann vinstri/grænna um sölu á eignum í Keflavíkurstöðinni, sem hann telur lögbrot og EES-brot - fréttastofan tók fram, að Atli væri hæstaréttarlögmaður, líklega til að gera orð hans merkilegri.
Í Kastljósi kvöldsins krafðist Atli gagna um sölu eigna í Keflavíkurstöðinni í krafti þess, að hann væri fulltrúi almennings og alþingismaður.
Atli Gíslason er vissulega alþingismaður, hæstaréttarlögmaður og fulltrúi almennings - en hann er einnig pólitískur málsvari stjórnmálaflokks, sem ætlar enn og aftur að þrífast á því að gera aðra tortryggilega og væna þá um að kunna ekki að gæta almannahagsmuna. Hvernig væri, að Atli kenndi Svandísi Svavarsdóttur, flokkssystur sinni, að gæta hagsmuna almennings við ráðstöfun á eignum Orkuveitu Reykjavíkur? Tvískinnungur vinstri/grænna gerir þá marklausa.
Markaðsfréttir eru ekki góðar en FL Group er að festa fé á yfirverði með OR í orkuveitu á Filippseyjum, sem hlýtur að sýna sterka stöðu FL - en hvert er hlutverk OR, sem þarna er undir nafninu REI?
Evran er algóð segja sumir en hvað segir þýska vikublaðið Der Spiegel:?
„The strong euro -- and weak dollar -- is making it increasingly difficult for European companies to do business overseas. SPIEGEL ONLINE spoke with German government economic advisor Peter Bofinger about the dangers of an unfettered euro and what the European Central Bank should do.“
Þetta bendir ekki til þess, að lausn alls vanda hafi fundist með evrunni - er það? Að sjálfsögðu ekki. Í Evrulandi kvarta menn ekki síður undan gengi og vöxtum en annars staðar.