Föstudagur, 16. 11. 07.
Dagur íslenskrar tungu.
Ég lagði fram tillögu um að halda afmælisdag Jónasar Hallgrímssonar hátíðlegan sem dag íslenskrar tungu í ríkisstjórn 1995. Í færslu hér á síðunni frá 19. nóvember 1995 segir:
„Raunar gerist svo margt í hverri viku, að hættulegt er að vera með upptalningu sem þessa, því að auðvelt er að gleyma einhverju merkilegu, til dæmis eins og því, að fimmtudagskvöldið 16. nóvember kveikti ég á sjónvarpsstöðinni Sýn og fyrr þann sama dag samþykkti ríkisstjórnin þá tillögu mína, að þessi dagur, 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, listaskáldsins góða, skuli framvegis vera Dagur íslenskrar tungu."
Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur 1996. Hann var brothættur í fyrstu en hefur sótt í veðrið og aldrei hefur honum verið fagnað jafnveglega og í dag, þegar 200 ár eru liðin frá fæðingu Jónasar.
Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var samþykkt tillaga mín um að dagurinn yrði framvegis almennur fánadagur og skýrði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra frá samþykktinni á glæsilegri hátíðarsamkomu í Þjóðleikhúsinu í kvöld, þar sem herra Sigurbjörn Einarsson biskup fékk verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Sveinn Einarsson setti dagskrá hátíðarinnar saman og var sjónvarpað beint frá henni.
Margt er gert í tilefni dagsins. Dagný Jónsdóttir, fyrrverandi alþingismaður og núverandi íslenskunemi í Háskóla Íslands, sendi mér þetta vinsamlega bréf um einn viðburðinn:
„Í tilefni dagsins vildi ég greina þér frá því að síðasta laugardag var haldið málræktarþing á vegum Íslenskrar málnefndar. Ég flutti þar erindi sem fjallaði um tungumálanotkun og málfar í viðskiptalífinu og hjá hinu opinbera. Við m.a. prófarkarlásum fréttir á heimasíðum allra ráðuneytanna og flokkuðum niður villurnar. Það er skemmst frá því að segja að tvö ráðuneyti skáru sig úr varðandi vandaða málnotkun og það voru forsætis- og dóms- og kirkjumálaráðuneyti." (Leturbreyting mín Bj. Bj.)
Ég flutti ávarp á aðalfundi Dómarafélags Íslands klukkan 14.00 og í tilefni dagsins fór ég með Málsvörn eftir Jónas Hallgrímsson:
Minnumst þess einnig í dag, að 150 ár eru liðin frá fæðingu Jóns Sveinssonar, Nonna. Af því tilefni er efnt til hátíðar í Köln, þar sem hann er grafinn auk þess sem sýning er í Nonnahúsinu á Akureyri.