22.11.2007 19:36

Fimmtudagur, 22. 11. 07.

Samkvæmt niðurstöðum könnunar, sem birt var í dag, eru íbúar höfuðborgarsvæðisins ánægðir með störf lögreglunnar, en um 90% töldu lögregluna skila frekar góðu eða góðu starfi. Yfir 90% íbúa telja sig jafnframt almennt vera örugga eina á gangi í sínum eigin hverfum þegar myrkur er skollið á. Þrátt fyrir það sögðust um 55% íbúa á höfuðborgarsvæðinu sig vera mjög eða frekar óörugga eina á gangi í miðborg Reykjavíkur eftir myrkur.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu getur unað vel við þessa niðurstöðu enda sýnir hún, hve mikils trausts hún nýtur. Staða lögreglunnar er sterk, þrátt fyrir hinar neikvæðu umræður síðsumars um atbeina hennar gegn subbuskap og ómenningu í miðborg Reykjavíkur.

Í dag skipaði ég Valtý Sigurðsson. fangelsismálastjóra, í embætti ríkissaksóknara frá og með 1. janúar 2008. Var hann meðal sex umsækjenda um embættið.

Í sjónvarpsfréttum ríkisins var í kvöld sagt frá því, að með frumvarpinu um meðferð sakamála væri ég að mæla með því, að lögregla þyrfti úrskurð dómara til að lögregla gæti notað eftirfararbúnað - slíkan úrskurð þyrfti ekki nú.

Sérkennilegt er, að Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, telji, að með þessu sé ég að vega að mannréttindum. - Fjölmiðlamenn hafa talað á sama veg og Atli og talið þetta eitt fréttnæmasta ákvæði frumvarpsins þar sem í því fælist aðför að mannréttindum.  Er það virkilega aðför að mannréttindum að leggja til, að ákvæði um þessa rannsóknaraðferð lögreglu sé lögbundin og háð úrskurði dómara?

Atli Gíslason hefur einfaldlega hlaupið á sig í gagnrýni á frumvarpið um meðferð sakamála eins og hann hljóp á sig í gagnrýni á sölu eigna í Keflavíkurstöðinni - en alþingi samþykkti sérstök lög um, hvernig að sölunni skyldi staðið.