Fimmtudagur, 08. 11. 07.
Sit á flugvellinum í Brussel og bíð eftir flugvél til Stokkhólms, þar sem ég flyt erindi á morgun á ráðstefnu Swedish Atlantic Association og ræði um öryggismál á Norðurslóðum.
Í tengslum við Schengen-ráðherrafundinn hér í Brussel í dag ræddi ég við Franco Frattini, dómsmálastjóra Evrópusambandsins, og var það niðurstaða okkar að hittast snemma á næsta ári til að ræða um samstarf Íslands og ESB á sviði lög- og réttargæslu. Þar eru að verða miklar breytingar og Frattini hefur kynnt tillögur um að herða baráttuna gegn hryðjuverkum og vill, að EFTA-ríkin séu með í því verkefni.
Ég sé í fréttum, að Frakkar hafa ákveðið að senda fyrstu orrustuþoturnar til Íslands samkvæmt áætlun NATO um lofthelgisgæslu. Áhugi Frakka kemur mér ekki á óvart miðað við samtöl mín við þáverandi varnarmálaráðherra þeirra í apríl 2006.
Undir forsæti Nicolas Sarkozys hafa Frakkar einnig ákveðið að verða að nýju virkir í hernaðarsamstarfinu innan NATO en Charles de Gaulle dró þá út úr því árið 1966 í sama mund og ákveðið var að flytja höfuðstöðvar NATO frá París til Brussel.
Flæmingjar í stjórnlaganefnd belgíska þingsins samþykktu í gær, að stækka Flæmingjalandið umhverfis Brussel. Vallónar telja þetta mikla ögrun við sig og gengu af nefndarfundi til að mótmæla því, sem þeir töldu ofríki meirihlutans. Stjórnarkreppan er nú orðin lengri í Belgíu en nokkru sinni fyrr.
Ps. farangurinn minn kom í morgun frá Kaupmannahöfn.