Mánudagur, 19. 11. 07.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, hrósar Evrópuráðinu í Kastljósi kvöldsins fyrir að standa vörð um mannréttindi í baráttunni gegn hryðjuverkum. Í gærkvöldi var Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, að býsnast yfir því í fréttum hljóðvarps ríkisins, að í frumvarpi, sem ég hef flutt, um breytingar á hegningarlögum væri gengið of hart að mannréttindum í baráttunni gegn hryðjuverkum. Frumvarpið byggist á samningi Evrópuráðsins um þessa baráttu.
Í pistli um tíðindalitlar þingfréttir sagði ég, að snemma á tíunda áratugnum hefði verið talið kosta um 400 milljónir króna að útvarpa frá fundum alþingis. Mér hefur í dag verið bent á, að þessi tala sé of lág, því að rætt hafi verið um 700 milljónir króna!
Halla Gunnarsdóttir, þingfréttaritari Morgunblaðsins, benti mér á, að af pistlinum mætti ráða, að hún hefði dregið af því pólitískar ályktanir, að ég hóf að flytja annað mál á dagskrá í stað hins fyrsta - þetta hefði hún ekki gert. Ég breytti textanum til að draga úr líkum á slíkum misskilningi, enda vakti ekki fyrir mér að jafna Höllu við spunameistara.