2.11.2007 21:40

Föstudagur, 02. 11. 07.

Í umræðunum um verðkannanir, samráð og framgöngu stórmarkaða gagnvart birgjum vekur enginn máls á því, að viðmælendur fjölmiðla kjósa almennt að koma fram á þann veg, að þeir þekkist ekki í sjón og ekki sé unnt að greina rétta rödd þeirra. „Vitnavernd“ af þessum toga tíðkast almennt ekki nema fjallað sé um þá, sem beita viðmælendur fjölmiðla eða opinberra eftirlitsaðila ofbeldi af einhverju tagi. Skyldi bara þykja sjálfsagt og eðlilegt, að þannig finnist hinum almenna borgara að hann þurfi að haga sér, þegar hann ræðir málefni þessara fyrirtækja opinberlega?

Kannski kjósa menn þessa nafnleynd, eftir að hafa fylgst með því, hvernig vegið er á opinberum vettvangi að þeim, sem eigendur sumra þessara markaða telja sér andsnúna? Með auglýsingu í öllum blöðum skömmu fyrir síðustu kosningar var ráðist gegn mér og fólk hvatt til að strika yfir nafn mitt. Eftir það fékk ég orðsendingar frá einstaklingum, sem töldu sig hafa sætt yfirgangi úr sömu átt.

Fréttir berast af því, að vegur Reynis Traustasonar, núverandi ritstjóra DV, sé að vaxa innan fjölmiðlaarms Baugsveldisins. Skyldi það vera vegna vinsælda DV  undir hans stjórn? Fréttablaðið segir 2 til 3% lesa DV daglega. Eða er það vegna þess á hvern hátt hann skrifar um þá, sem hann telur óþægilega fyrir eigendur DV? Skyldu einhverjir vilja vera í friði fyrir slíku og þess vegna kjósa að leyna nafni og númeri í opinberri umræðu?