10.11.2007 17:27

Laugardagur, 10. 11. 07.

John Vinocur frá International Herald Tribune flutti lokaræðuna á ráðstefrnunni í Stokkhólmi í gær og ræddi um Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta og hvers vegna hann hefði ákveðið að taka upp nýja stefnu gagnvart Bandaríkjunum og NATO og hve djúpstæð áhrif þessi breyting væri fyrir Frakka. Í samtölum okkar þótti honum, að ákvörðun Frakka um að senda orrrustuþotur til Íslands væri enn til marks um þessar nýju áherslur í utanríkisstefnu Frakka og raunar stórmerkileg í mörgu tilliti.

Vinocur notaði stefnubreytingu Frakka sem dæmisögu fyrir Svía, væru þeir að hugsa um aðild að NATO. Það þyrfti öfluga forystu og skýran vilja til að ræða mál á nýjum grunni, ef ganga ætti til þess verks - raunar gjörbreytt viðhorf heima fyrir, hvað sem liði áhrifum stefnubreytingarinnar út á við.

Hugo Chavez, alvaldur í Venezúela, hiitir Sarkozy í París í næstu viku. Jóhann Spánarkonungur sagði Chavez að þegja á fundi í Chile í dag, eftir að Chavez hafði sagt Asnar, fyrrverandi forsætisráðherra Spánar, fasista.

Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, kallar innlenda og erlenda stjórnmálamenn gjarnan fasista. Skyldi Chavez hafa lært orðbragðið af honum? Jónas hefur að minnsta kosti gripið til þessa orðbragðs lengur en Chavez, eftir því sem best er vitað. Spánarkonungur ætti kannski að taka Jónas í tíma? Víst er þó, að það væri eins og að skvetta vatni á gæs. Jónas gerði hið sama og Chavez, sem lét ekki af derringnum.