29.4.1998 0:00

Miðvikudagur 29.4.1998

Klukkan 8.20 hélt flugvélin af stað með okkur frá Köln til München en klukkan 11.30 hófst þar minningarathöfn í einum af kirkjugörðum borgarinnar við leiði dr. Konrads Maurers, prófessors og Íslandsvinar, sem ferðaðist um Ísland árið 1858 og ritaði ferðabók, en Ferðafélag Íslands gaf hana út á síðasta ári í þýðingu Baldurs Hafstaðs. (Mæli ég eindregið með bókinni, því að hún bregður upp mjög góðri mynd af Íslandi á þessum tíma.) Maurer studdi okkur auk þess eindregið í sjálfstæðisbaráttunni við Dani og var vinur Jóns Sigurðssonar auk þess sem hann hvatti til þess, að þjóðsögum væri skipulega safnað hér á landi og bjargaði þannig miklum menningarverðmætum frá glötun. Tæplega hundrað manns tóku þátt í þessari hátíðlegu klukkustundarathöfn í kirkjugarðinum og voru margar ræður fluttar, kom það í minn hlut að tala um Maurer og Ísland. Prófessor Kurt Schier, sem hefur kennt norræn fræði í München og er óþreytandi við að halda íslenskri menningu á loft í Þýskalandi, var driffjöðurinn á bakvið þessa athöfn í München en Ferðafélag Íslands gaf þrjá bautasteina sem hafa verið settir upp á gröf Maurers og konu hans með áletrun á þýsku og íslensku. Er íslenski textinn þannig: Brautryðjandi á sviði norrænna fornfræða, frumkvöðull í frelsisbaráttu Íslendinga, velgjörðarmaður Íslands. Að lokinni minningarstundinni buðu sendiherrahjónin öllum viðstöddum til hádegisverðar í nálægu hóteli.