18.2.2010 21:52

Fimmtudagur, 18. 02. 10.

 

Enn birtist ný hlið á málflutningi íslenskra stjórnvalda í Icesave-málinu í dag, þegar sendiskýrsla forstöðumanns bandaríska sendiráðsins, um trúnaðarsamtöl hans við embættismenn íslensku utanríkisþjónustunnar frá 12. og 13. janúar var birt á vefsíðunni Wikileaks. Hér fyrir neðan endursegi ég efni þessarar skýrslu, eins og hún birtist á vefsíðunni.

Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sagði Ísland verða gjaldþrota árið 2011, ef Icesave-málið drægist á langinn.

Þá hljóta ummæli Hjálmars W. Hannessonar, sendiherra Íslands í Washington, um Ólaf Ragnar Grímsson að vekja undrun, ekki vegna þess að þau séu ósönn, heldur að sendiherra skuli ræða um hann á þennan veg við erlendan stjórnarerindreka.

Á sama tíma og ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafa borið sig mannalega í Icesave-málinu, ber framganga íslensku embættismannanna þess merki, að örvænting hafi ríkt innan stjórnarráðsins. Að embættismenn tali á þennan veg án samþykkis utanríkisráðherra er óhugsandi. Hlýtur utanríkismálanefnd alþingis að krefjast þess, að fyrir hana verði lagðar frásagnir íslensku embættismannanna um viðræður þeirra við Sam Watson.

Hina síðustu daga hafa ráðherrar verið á harðahlaupum undan eigin ákvörðunum í Icesave-málinu. Þeir hafa jafnframt hamast við að segja sig frá ábyrgð, þegar kemur að málefnum banka og endurreisn fyrirtækja í höndum manna, sem geta ekki greitt tug eða hundruð milljarða skuldir. Þá hafa ráðherrar ekkert viljað segja um efni funda með erlendum viðmælendum sínum. Sendiskýrslan til Washington gefur hugmynd um, hve lágt risið er á íslenskum stjórnarerindrekum í samskiptum þeirra við sendimenn annarra ríkja. Ríkisstjórnin og þá sérstaklega utanríkisráðherra getur ekki hlaupist undan ábyrgð vegna þess.

Með því að slá á krækjuna Lesa meira hér fyrir neðan má nálgast endursögn mína á sendiskýrslunni til Washington.

 

 

 

 

 

Hinn 18. janúar birtist sendiskýrsla frá Sam Watson, forstöðumanni bandaríska sendiráðsins í Reykjavík, á vefsíðunni Wikileaks  http://wikileaks.org/file/us-watson1-2010.txt . Þar segir Watson frá samtölum sínum við þrjá embættismenn í íslensku utanríkisþjónustunni, Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóra, Kristján Guy Burgess, aðstoðarmann utanríkisráðherra, og Hjálmar W. Hannesson, sendiherra Íslands í Washington, dagana 12. og 13. janúar 2010.

Ólafur Ragnar neitaði 5. janúar að rita undir Icesave-lögin. Íslensku embættismennirnir ræddu við Watson á því, sem hann kallar „maraþonfund“, það er í tvær klukkustundir 12. janúar  um afleiðingar neitunar Ólafs Ragnars og þá stefnu íslenskra stjórnvalda að koma í veg fyrir, að lögin yrðu lögð fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu.  Að öllum líkindum yrðu lögin felld. Þá yrði Ísland komið á byrjunarreit í málinu gagnvart Bretum og Hollendingum.  Þjóðin yrði þó enn verr stöðdd, því að hún hefði glatað alþjóðlegum trúverðugleika  og aðgangi að fjármagnsmörkuðum. Einar Gunnarsson hefði gefið til kynna, að Icesave-málið mundi leiða til þjóðargjaldþrots Íslands 2011, ef það drægist á langinn, en þá féllu mörg lán í gjalddaga – þar með hyrfi Ísland 30 ár til baka.

Með þessum rökum lögðust embættismennirnir á hnén frammi fyrir Watson og báðu fyrir þau boð til Washington, að þar yrðu menn að rétta Íslandi hjálparhönd. Watson ítrekaði, að Bandaríkin væru hlutlaus í þessu tvíhliða máli og á því yrði að finnast skjót lausn. Bandaríkin hefðu stutt Ísland síðast þegar fjallað var um mál þess á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og mundi líklega gera það aftur með hliðsjón af aðstæðum. Einar og Kristján sögðust skilja þessa afstöðu, en hitt væri ómögulegt að lýsa hlutleysi gagnvart Icesave-málinu. Ísland sætti einelti af mun stærri ríkjum og hlutleyisisafstaða jafngilti því að líða slíkt einelti. Bandaríkin ættu að gefa út opinbera stuðningsyfirlýsingu við Ísland og vinna að því, að mál Íslands kæmist á dagskrá AGS, það gerðist ekki án þrýstings.

Einar og Kristján hefðu verið gífurlega svartsýnir vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar og ríkisstjórnin væri að leita annarra leiða til að leysa Icesave-málið. Ef  til vill mætti semja að nýju og það hefði verið rætt við stjórnarandstöðuna. Allir kynnu  að bjarga andlitinu að lokum, ef semja mætti um lægri vexti við Breta og Hollendinga. Nýr samningur yrði að vísu að fara að nýju fyrir þing og hljóta undirritun forseta.

Watson segist hafa rætt við Ian Whiting, sendiherra Breta á Íslandi, hinn 13. janúar. Hann hefði sagt, að Bretar kynnu að athuga leiðir til að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Skilaboð frá íslenskum stjórnvöldum væru hins vegar misvísandi. Viku fyrr hefði Jóhanna Sigurðardóttir sagt Gordon Brown, að hún mundi sætta sig við þjóðaratkvæðagreiðsluna nú virtist annað uppi á tengingnum. Fjármálaráðuneytið væri þegar tekið til við að kanna endurbætur á samningnum, án þess að draga úr greiðsluskyldu. Kannski mætti fá Norðmenn til að lána Íslendingum fé til að standa undir Icesave-skuldunum. Þar með mundu Íslendingar eiga samskipti við þjóð, sem þeir teldu sér vinsamlegri en Breta. Þetta gæti bjargað andliti allra aðila að málinu. Hann ætlaði að ræða þetta við norska sendiherrann þennan sama dag.

Hinn 13. janúar hitti Watson einnig Hjálmar W. Hannesson, sendiherra Íslands í Washington, sem var á Íslandi. Hjálmar lýsti hugsanlegri stjórnlagakrísu, ef lögin yrðu felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, það yrði í raun vantraust á ríkisstjórnina. Þá hefði þjóðhöfðingi án stjórnmálaábyrgðar í raun fellt kjörna ríkisstjórn, en fyrir löngu hefðu fyrrverandi stjórnmálamenn í báðum flokkum verið sammála um, að slíkt ætti ekki að gerast. Þrátt fyrir langvinn tengsl sín og fjölskyldu sinnar við Framsóknarflokkinn teldi hann þetta hvorki tíma fyrir kosningar né stjórnarskipti. Hann bætti við, að hann sæi ekki vilja hjá stjórnarandstöðunni til að taka við stjórnartaumunum. Hann vakti máls á því, að forsetinn, sem hann hefði þekkt um árabil, væri talinn „óútreiknanlegur“, og hann sagðist því vona, að unnt yrði að finna lausn, sem yrði aðgengileg fyrir alla málsaðila á Íslandi.

Í lok skýrslu sinnar segir Watson, að það sé fljótt að skýrast, að mjög fáir þeirra, sem hlut eigi að máli, sætti sig við að Icesave-málið sé lagt undir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Bæði ríkisstjórn og stjórnarandstaða virðist átta sig á því, að þeir verði að vera samstiga til að nokkur von sé til að unnt verði að ræða nýjar lausnir við Breta og Hollendinga. Eins og málum sé háttað, sé óljóst, hvort slík samstaða náist; þó muni stjórn og stjórnarandstaða efna til lokaðra funda á næstu dögum til að ræða allar hliðar málsins og vonandi ná saman. Um þetta allt ríki þó óvissa.