5.2.2010

Föstudagur, 05. 02. 10.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion-banka, var ekki sannfærandi í Kastljósi kvöldsins, þegar hann leitaðist við að rökstyðja, að best væri, að sömu menn og stofnað hafa til tugmilljarða skulda við bankann, sem óvist er, að fáist nokkru sinni greiddar, haldi áfram að reka og eiga stærstu fyrirtæki landsins. Að menn sitji undir grun vegna viðskipta eða fréttir séu um ótrúlega meðferð þeirra á rosalegum fjárhæðum, breyti engu um það.

Af yfirlýsingum bankastjórans má ætla, að hann og bankinn hafi látið undan þrýstingi fráfarandi eigenda Haga, þegar ákvörðun var tekin um framtíð fyrirtækisins. Bankinn hafi ekki haft þrek til að standa gegn þessum þrýstingi. 

Steingrímur J. hefur barið sér á brjóst, frá því að bankarnir hrundu, og skellt skuldinni á þá stjórnmálamenn, sem að hans mati létu líðast, að þeir, sem fyrir hrunið settu mestan svip á viðskiptalífið, gátu notið sín. Nú þegar Steingrímur J. hefur undirtökin gagnvart bönkum, virðist höfuðmarkmið bankanna að sjá til þess, að sömu gömlu, stóru viðskiptavinirnir og settu þá á hausinn, fái forskot til að geta haldið áfram.

Markaðshlutdeild Haga nálgast 60%. Fyrirtækið hefur flutt megn tekna sinna til fjárfestinga erlendis. Hagar minna í raun á gömlu selstöðukaupmennina. Nú vill bankastjóri Arion selja okkur, að best sé að halda sömu skipan áfram.