Þriðjudagur, 09. 02. 10.
Flugum klukkan 07.00 til London Gatwick með Iceland Express. Ferðin gekk eins og í sögu. Klukkan 12.25 flugum við síðan með EasyJet til Rómar, allt stóð þar einnig eins og stafur á bók. Lentum í Róm um klukkan 15.00 að íslenskum tíma, 16.00 að tíma heimamanna.
Rut er að spila með kvartett Kammersveitar Reykjavíkur í Róm. Una Sveinbjarnardóttir, leikur á fyrstu fiðlu, Guðrún Huld Harðardóttir, á víólu, en þær stöllur tóku við forystu í kammersveitinni af Rut um áramótin. Sigurgeir Agnarsson leikur á selló í kvartettinum.
Ákveðið var, að tengiliður kvartettsins í Róm, Sebastiano Brusco, myndi hitta okkur á Termini, aðalbrautarstöðinni inni í Róm. Við útganginn úr flugstöðvarbyggingunni niður að járnbrautarlest hittum við mann, sem seldi okkur far í „minibus“ á 10 evrur, einni evru minna en kostaði að taka lestina. Tókum við boði hans. Ferðin inn í borgina gekk vel. Veðrið hefði hins vegar mátt vera betra, það hellirigndi.
Eftir nokkra bið í kulda á brautarstöðinni, hittum við Sebastiano. Þau þrjú fóru með honum en við Rut tókum leigubíl. Bílstjórinn sagði kosta 28 evrur að aka okkur að íbúð, sem við höfðum leigt skammt frá Piazza Campo de Fiori, það er Blómatorginu.
Bílstjórinn þekkti ekki götuna og neitaði svo að aka inn í hana að lokum, það væri bannað vegna þess, hve hún væri þröng. Reyndist það rangt hjá honum. Með því að taka þennan leigubíl, sönnuðum við réttmæti viðvarana í ferðamannabæklingum um Róm um að skipta ekki við aðra bílstjóra en aka skráðum leigubílum. Við vorum þó í góðri trú, þar sem bíllinn stóð fremstur í röð bíla með taxa-merki á þakinu við aðalbrautarstöðina. Þarna var líklega okrað á okkur af reynslulausum bílstjóra.
Við gengum, stuttan, síðasta spölinn og hringdum í fulltrúa leigusalans. Hann kom á staðinn eftir drykklanga stund, sem leið lengur en ella vegna rigningar og kulda.
Fulltrúinn sagði sínar farir ekki sléttar. Íbúðin væri ónothæf vegna bilunar. Hann yrði að fara með okkur í aðra íbúð. Reyndi hann að hringja í leigubíl, en þá má ekki stöðva á götum úti í Róm, heldur verður annað hvort að hringja eða að fara að leigubílastaur. Honum tókst ekki að ná í neinn bíl og gengum við því yfir Tíberfljót á Ponte Sisto og inn í Trastevere-hverfið, þar sem við fengum þægilega íbúð við kyrrláta litla götu. Þetta var aðeins 300 m ganga.
Trastevere þýðir „handan við fljótið Tevere“, það er hverfið handan við fljótið Tíber. Íbúar hér telja sig hina sönnu Rómverja. Vatíkanið stendur skammt fyrir norðan Trastevere, á sömu hlið við fljótið.