22.2.2010

Mánudagur, 22. 02.10.

Steingrímur J. Sigfússon lýsti yfir því í þingræðu í dag, að hann teldi efnahags- og atvinnulífið á réttri leið, þar sem meira hefði selst af blómum í gær, á konudaginn, en sama dag árið 2009. Þessi frumlega greining fjármálaráðherra á stöðu þjóðarbúsins, byggist á samtali fréttamanns RÚV við einn blómasala í vesturbæ Reykjavíkur að kvöldi konudagsins.

Í Fréttablaðinu birtist í dag úttekt á vinstri-grænum, þar sem því er sagt er frá miklum og djúpstæðum átökum innan flokksins. Gagnrýni á Steingrím J. sé þung og vaxandi. Ræði hann mál við flokksmenn sína á sama hátt og hann talar í sífellu í fjölmiðlum, segir eitt í dag og annað á morgun, þarf engan að undra, að efasemdir um forystuhæfileika hans skjóti rótum innan flokks hans.

Blómatal Steingríms J. á þingi í dag sýnir algjört skilningsleysi á alvarlegri stöðu atvinnuveganna. Í dag ræddi ég við byggingaverktaka utan Reykjavíkur, sem sagðist nú með fimm menn í vinnu en þeir hefðu verið 20 fyrir ári. Ólíklegt er, að hinir atvinnulausu hafi keypt mikið af blómum í gær.

Verktakinn átti ekki nægilega sterk orð til að lýsa andúð sinni á skattastefnu Steingríms J. Óskiljanlegt væri, að fjármálaráðherra teldi sig geta aukið tekjur ríkissjóðs með því að hækka skatta á fólki og fyrirtækjum með tómar buddur.