26.2.2010

Föstudagur, 26. 02. 10.

Ríkisstjórnin treystir sér ekki enn til að horfast í augu við þá staðreynd, að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin hinn 6. mars. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússona láta enn eins og ná megi betri samningum næstu daga, þótt viðræðuslit hafi orðið í gær á fundi í London. Með þessu tali eru ráðherrarnir aðeins að slá ryki í augu almennings og kjósenda.

Hið versta, sem  nú gerðist í málinu, væri, að þjóðin samþykkti Icesave-lögin. Baráttan gegn þeim hefur þegar leitt í ljós, að unnt er að ná betri samningum en Svavar Gestsson gerði 5. júní 2009. Tækifærinu til að fylgja breytingu á þeim hroðalegu samningum eftir yrði kastað fyrir róða, ef Icesave-lögin yrðu samþykkt. Lögin verður að fella.

Í dag var aðeins farið að gæta sama hræðsluáróðursins og ríkisstjórnin flutti í fyrstu, þegar Ólafur Ragnar hafði neitað að undirrita Icesave-lögin. Hér yrði allt í lamasessi, ef ekki yrði gengið tafarlaust að Icesave-afarkostunum. Hvernig má það vera? Þegar liggur fyrir, að Bretar og Hollendingar vilja slá af kröfum sínum og lækka skuldabyrði þjóðarinnar. Með þjóðaratkvæðagreiðslu stefnir örugglega í meiri eftirgjöf Breta og Hollendinga, sem lækkar enn skuldir Íslendinga.

Moody's matsfyrirtækið er með illspár í garð Íslendinga, vegna þess að ekki hefur tekist að ljúka Icesave. Furðulegt er, ef þetta fyrirtæki, sem leggur meðal annars mat á skuldabyrði, telur Íslendingum til tjóns, að þeir leggi sig alla fram til að lækka erlendar skuldir sínar.