23.2.2010

Þriðjudagur, 22. 02. 10.

Furðulegt var að heyra, hve Össur Skarphéðinsson kvað öðru vísi að orði á alþingi í dag um efni sendiskýrslunnar eftir Sam Watson, staðgengil sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, en hann gerði hinn 18. febrúar, þegar hún var birt. Þá barði Össur sér á brjóst og sagði, að hann hefði jafnvel gengið lengra en embættismenn utanríkisráðuneytisins í yfirlýsingum við Watson. Nú lætur Össur eins og gjalda eigi varhug við efni skýrslunnar, hún sé skráð af einum manni eftir minni.

Össur hefur að sjálfsögðu áttað sig á því, hve einkennilega var talað við bandaríska embættismanninn. Fljótfærnislegar yfirlýsingar Össurar við fyrstu spurningum við birtingu skýrslunnar stóðust ekki gagnrýni. Þá snýr Össur bara við blaðinu og ýtir undir tortryggni í garð Watsons. Hvorki er það stórmannlegt hjá ráðherranum né réttmætt, þegar hann hafði áður sagt, að embættismenn sínir hefðu síst gengið of langt.

Hvernig sem á þetta mál er litið, hvort heldur samtölin við Watson eða viðbrögð Össurar, er ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri, að ákaflega illa og klaufalega hafi verið og sé að málinu staðið af hálfu utanríkisráðuneytisins.

Steingrímur J. og Össur gera allt, sem þeir geta til að hindra að Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram. Þeir hafa hins vegar tapað valdi á málinu, eftir að þeir hófu samráðsferlið við stjórnarandstöðuna.