13.2.2010

Laugardagur, 13. 02. 10.

 

Sólfagur, svalur dagur í Róm.

Við héldum snemma í Péturskirkjuna og þurftum þess vegna ekki að bíða lengi vegna öryggisleitar, áður en gengið er inn í hana. Hér ætla ég ekki að segja sögu þessarar fögru byggingar, sem á rætur sínar aftur til tíma Konstantínusar keisara eins Pálskirkjan utan múra, það er til fjórðu aldar. Ég hef áður sagt frá Péurskirkjunni hér á síðunni og ferð minni í grafhýsin undir henni, en þar eru líkasmleifar Péturs postula. Vonandi tekst að sannreyna þær eins og líkamsleifar Páls postula undir altari Pálskirkjunnar utan múra.

Frá Péturskirkjunni héldum við, sem leið lá með tveimur strætisvögnum að kirkju San Giovanni in Laterano, Heilagur Jóhannes í Laterano. Hún er talin móðir og fyrst allra kirkna í Róm og veröldinni allri. Því er hún dómkirkja Rómar og páfans, sem er jafnframt Rómarbiskup. Páfar bjuggu í Laterano fram til ársins 1305, þegar þeir fluttu í 72 ár til Avignon í Frakklandi. Þegar páfi sneri aftur til Rómar árið 1377, settist hann að í Vatíkaninu.

Sögu Jóhannesarkirkjunnar Laterano má rekja aftur til daga Konstantínusar keisara eins og Péturskirkjuna og Pálskirkjuna utan múra. Keisarinn lét páfa eftir land á þessum stað og eign Laterano-fjölskyldunnar. Upprunalega kirkjan hefur ekki varðveist, hún mátti þola vandalisma í orðsin fyllstu merkingu, þegar Vandalar réðust á Róm, þá varð hún fyrir skaða í jarðskjálfta árið 896 og á 13. öld varð hún tvisvar eldi að bráð.

Á leið til kirkjunnar ókum við framhjá Colosseum. Mikill mannfjöldi var þar að skoða þetta stórkostlega mannvirki og síðan Forum Romanum, sem liggur að Kapítólhæð. Við höfðum bæði skoðað þetta einstaka svæði áður og ég lýst ferð minni um það hér á síðunni.

Síðdegis gengum við að Spænsku tröppunum, vinsælum ferðamannastað, sem dregur nafn sitt af spænska sendiráðinu í nágrenni við tröppurnar. Þar var múgur og margmenni. Eftir að rigningu og snjókomu síðustu daga slotaði er borgarlífið orðið fjörugra. Víða mátti sjá börn í grímubúningum vegna karnivalsins fyrir upphaf föstunnar. Á Piazza Navone, stórtorgi í hjarta bæjarins, skammt frá Pantheon, voru leikarar og trúðar að sýna listir sínar.

Okkur hefur ekki gefist neitt tækifæri fyrr en í kvöld að sjá næturlíf í Trastevere. Hér er mikið af litlum veitingastöðum við þröngar, steinlagðar götur. Þeir voru allir þéttsetnir og mikið af fólki á götunum. Hópur Carabinieri-lögreglumanna var við öllu búinn. Torgið við brúna virðist vera einskonar „hallærisplan“ ungra Rómverja. Næturhávaði frá skemmtanalífinu á torginu eða í hverfinu nær ekki í okkar litlu götu. Í henni stendur hins vegar hræ af brenndum bíl, sem kannski er fórnarlamd einhverra Vandala nútímans.