Sunnudagur, 07. 02. 10.
Viktor Janúkóvits verður næsti forseti Úkraínu eftir að hafa sigrað Júlíu Tímósjenkó, núverandi forsætisráðherra, í kosningum í dag. Janúkóvits sækir styrk sinn til austurhluta Úkraínu, þar sem sagt er, að menn séu hallir undir Rússa. Dr. Tatjana Parkhalina frá Rússlandi, sem var hér í síðasta mánuði, sagði, að ekki bæri að draga þá ályktun af sigri Janúkovits, að Úkraína yrði undir hælnum á Kremlverjum. Ólígarkarnir, sem stæðu að baki Janúkovits teldu sig betur setta í góðu sambandi við Vesturlönd en undir Rússum. Spáði hún því, að Janúkóvits mundi vilja nálgast Evrópusambandið og jafnvel NATO.
Kremlverjar óttast lýðræðisþróun í Úkraínu, vegna þess að þeir vilja ekki, að hið sama gerist í landi þeirra og ógni valdi þeirra og aðstöðu. Forvitnilegt verður að fylgjast með því, hvernig Janúkóvits heldur á málum heima fyrir. Hann hótar að reka Tímósjenkó. Geri hann það og taki sér meira vald í hendur en stjórnarskrá heimilar, myndi það vekja traust Kremlverja en grafa undan trausti á Vesturlöndum.