15.2.2010

Mánudagur, 15. 02. 10.

Hér er komin tenging á síðasta þátt minn á ÍNN, þegar ég ræddi við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Hlýnað hefur í Róm, en þó ekki nóg til þess, að fólk leggi frá sér vetrarúlpurnar. Enginn þarf þó að ganga með regnhlíf í dag.

Við tókum leigubíl að katakombum við Via Appia. Þær voru lokaðar, sem við komum að fyrst og gengum við þá að katakombum, sem kenndar eru við heilagan Sebastiaono. Hann var rómverskur riddari, sem snerist til kristinnar trúar og dó píslarvættisdauða.

Minna en öld er liðin frá því að fornleifafræðingar fundu fyrstu neðanjarðargrafirnar eða katakomburnar í Róm. Þessar borgir hinna dauðu (necropolis) voru utan borgarmúranna. Árið 257 bannaði Valerianus keisari kristnum mönnum í Róm að stunda trúarsiði sína, einnig í borgum hinna dauðu. Þeir gátu því ekki lengur hist við Vatíkangröf Péturs eða á Via Ostiana við gröf Páls. Eftir það tóku menn að heiðra postulana með leynd í katakombunum, sem síðar voru kenndar við heilagan Sebastiano, en enginn leit á sem kristinn legstað á þeim tíma. Er jafnvel talið, að líkamsleifar postulanna hafi verið faldar á þessum stað fram á fjórðu öld, þegar Konstantínus keisari snerist til kristni og kirkjur risu. Til marks um þetta benda sérfræðingar á, að á þessum stað hefur fundist fjöldi steinflísa með nöfnum postulanna. Flísarnar eru staðreynd en ekkert hefur fundist, sem staðfestir kenninguna, um að líkamsleifar postulanna hafi verið þarna.

Í um tveggja kílómetra fjarlægð frá kirkju heilags Sebastianos í áttina að borgarmúrunum er kirkja kennd við Quo vadis. Á þessum stað á sá atburður að hafa gerst, þegar Pétur postuli ætlaði að yfirgefa Róm og flýja ofsóknir Nerós keisara en hitti mann á göngu til borgarinnar, sem honum þótti líkjast Kristi, og spyr hann: Domine, quo vadis? Herra, hvert er ferð þinni heitið? Kristur á að hafa svarað: Ég er á leið til Rómar til að verða krossfestur öðru sinni. Pétur skammaðist sín fyrir eigin hræðslu, sneri aftur til Rómar, þar sem hann var tekinn og krossfestur.

Quo vadis-kirkjan er lítil, en fremst í henni er lítill steinn og við hann var blómvöndur, þegar við litum inn í kirkjuna. Sagt er, að fótspor Krists sé greypt í steininn. Sýnilegur vottur þess, að Pétur postuli hafi hitt hann.

Við lukum heimsóknum okkar í kirkjur Rómar að þessu sinni í Quo vadis-kirkjunni.

Vonandi gefst enn tækifæri til að sækja borgina eilífu heim. Sagt er, að sannir Rómverjar kæri sig kollótta yfir borginni sinni og því, sem þar er gert. Þeir viti, sem er, að hún lifi af öll mannanna verk og ekkert fái henni eytt.