21.2.2010

Sunnudagur, 21. 02. 10.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna í tilefni af 15 ára afmæli hennar. Samtals eru 15 ár liðin síðan ég hóf að skrifa reglulega á eigin síðu í netheimum. Þá var ekki talað um blogg, en nú væri þetta kölluð bloggsíða. Þær eru ekki margar í heiminum, sem eiga svo langa samfellda sögu.

Bretar og Hollendingar eru að kveikja villuljós í Icesave-málinu í von um, að ríkisstjórnin aflýsi þjóðaratkvæðagreiðslunni. Stjórnvöld landanna telja örugglega, að ríkisstjórn Íslands hafi það vald á þingmeirihluta sínum, að hún geti komið í veg fyrir atkvæðagreiðsluna, enda hljóti hún að sjá eigin sæng uppreidda, verði lögum hennar hafnað.

Dapurlegt er að hlusta á Steingrím J. Sigfússon grípa nú til þess hálmstrás í órökstuddum málflutningi sínum, að einhverju skipti fyrir okkur Íslendinga, að stjórn Hollands hafi sagt af sér eða kosningar séu yfirvofandi þar eða í Bretlandi. Nú reynir hann að nota þetta til hræðsluáróðurs. Í byrjun janúar, átti allt tafarlaust að verða á hverfanda hveli, úr því að Ólafur Ragnar hafnaði lögunum.

Vandinn í Icesave-málinu er sá, að ríkisstjórnin hefur samið tvisvar við Breta og Hollendinga, án þess að hafa vald á málinu heima fyrir. Ráðherrar og embættismenn hafa látið erlenda viðsemjendur sína halda, að málstaður ríkisstjórnarinnar haldi. Þeir hafa reynst ósannindamenn. Eina leiðin til að staðfesta það á afdráttarlausan hátt er að efna til þjóðaratkvæðagreiðslunnar, fella lögin og taka forystu í málinu endanlega úr höndum Steingríms J. og Jóhönnu. Þau njóta hvorki trausts hér á landi né viðsemjenda Íslands lengur.