4.2.2010

Fimmtudagur, 04. 02. 10.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna, sem ég kalla Egill, Víkverji, sérstaki saksóknarinn og Joly. Morgunblaðið birti í Staksteinum í dag ígildi afsökunar á fullyrðingum í Víkverja blaðsins 30. janúar, sem ég ræddi hér í dagbókinni 31. janúar. Egill Helgason ræddi sama mál á bloggsíðu sinni í dag. Honum ferst það ekki vel úr hendi, eins og ég lýsi í pistli mínum.

Jóhanna Sigurðadóttir var í Brussel í dag og fór með veggjum inn á fund Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og út af honum. Venja er, að forsætisráðherrar umsóknarríkja efni til blaðamannafunda í fjölmiðlasal ESB og lýsi stefnu stjórnar sinnar og væntingum vegna ESB-aðildar. Jóhanna gerði þetta ekki og vakti framkoma hennar neikvæða undrun. Kannski hefur hún þó sent þau réttu boð, að forsætisráðherra Íslands getur ekki talað opinberlega í Brussel um ESB-aðild í nafni ríkisstjórnar sinnar. Ríkisstjórnin er þverklofin í málinu. Því síður getur Jóhanna talað í nafni þjóðarinnar, hvort sem er um Icesave eða ESB-aðild. Aumlegri getur staða forsætisráðherra eins lands ekki verið í Brussel. Engum heima fyrir kemur á óvart, að Jóhanna vilji ferðast með leynd á þessar slóðir. Um Evrópu-höfuðborgina laumast hins vegar ekki aðrir gestir ESB en einræðisherrar eða þeir, sem óttast að vera sakaðir um afbrot.

Engin reisn var yfir ferð Jóhönnu. Hún notaði hins vegar sömu ESB-frasa og Össur Skarphéðinsson um, að allt léki í lyndi og hún væri ótrúlega ánægð með fund sinn með Barroso. Hinir innantómu ESB-frasar Jóhönnu og Össurar verða ekki til að styrkja stöðu Íslands gagnvart ESB í aðlögunarferlinu. Þeim er ætlað eins og málflutningi Steingríms J. um Icesave að vera ljúfir tónar í eyrum viðmælendanna. Bæði Jóhönnu og Steingrími J. virðist fyrirmunað að standa í ístaðið, þegar þau setjast til viðræðna með erlendum ráðamönnum.

Spyrja má, hvort málum sé í raun svo komið, að Samfylkingin sætti sig við þennan oddvita sinn og þjóðarinnar. Að hún telji sig tefla fram þeim, sem best geti gætt hagsmuna þjóðarinnar.

Meðal vinstri-grænna er óánægjan með Steingrím J. á því stigi, að flokksmenn eru hættir að geta talað saman um mál eins og Icesave. Það sannaðist með þögninni um málið í ályktun flokksráðsfundarins á Akureyri. Yfirgangur Steingríms J. vegna Icesave-samninga félaga Svavars er svo mikill, að flokksbræðrur vinstri-grænna í Noregi þorðu ekki að hreyfa sig í þágu Íslendinga, fyrr en þeir höfðu hitt andstæðinga Steingríms J. meðal vinstri-grænna á fundi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í síðustu viku.