Fimmtudagur 11. 02. 10.
Veðrið er þurrt og bjart í Róm en frekar kalt. Á leið okkar að hinum fræga Trevi-gosbrunni litum við inn í þrjár kirkjur.
Hin fyrsta var Santa Barbara dei Librari, vígð 1306. Þessi litla, fallega kirkja er innbyggð í enda á litlu torgi, Largo dei Librari, áður Piazzetta dei Librari, en árið 1601 var kirkjan helguð gildi bóksala, sem stofnað var árið áður. Á síðustu öld var kirkjan notuð sem vörugeymsla um nokkurn tíma en endurreist og endurvígð á níunda áratugnum. Sagan segir, að faðir dýrlíngsins Barböru hafi höggvið af henni höfuðið vegna kristinnar trúar hennar. Strax eftir óhæfuverkið varð elding föðurnum að bana. Heilög Barbara er verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, sprengjueyðingarmanna, námumanna, brunavarða og almennt allra, sem stofna lífi sínu í hættu. Með því er skírskotað til dauða föður hennar.
Enn á litum við inn í Pantheon, best varðveittu bygginguna frá tíma hinnar fornu Rómar. Pantheon var hof allra guða. Tilvist sína enn þann dag í dag á þetta einstæða mannvirki því að þakka, að hafa verið breytt í kirkju á sjöundu öld og þar með friðað. Marcus Agrippa (tengdasonur Ágústusar keisara) lét reisa hof á þessum stað 27 f. kr., sú bygging brann. Hadrianus, keisara, endurreisti hofið árið 125 e. kr. Af lítillæti leyfði Hardrianus nafni Agrippa að standa áfram þvert yfir anddyrinu, sem haldið er uppi af 16 rauðleitum granítsúlum. Bronslitaðir bitar prýddu anddyrið, þar til Barberini páfinn Urban VIII. lét fjarlægja þá, til að Bernini gæti nýtt bitana til að gera tjaldið yfir háaltarinu í Péturskirkjunni. Þetta verk páfa kallaði fram orðtakið: „Quod non fecerunt barbari, fecerunt Barberini“ – Það, sem barbararnir gerðu ekki, gerði Barberini.
Gestir í Pantheon falla í stafi yfir hvelfingu hússins, sem er 43 m að þvermáli og jafnhá. Þvermál hennar er meira en hvelfingar Péturskirkjunnar. Hún er einstakt byggingarsögulegt afrek. Efsti hluti hvelfingarinnar er opinn og i rigingu er miðsvæði hússins lokað, svo að gestir renni ekki á blautum marmaranum.
Loks skoðuðum við hina miklu barokkkirkju Sant‘Ignazio, sem reist var 1627 til 1685 til heiðurs leiðtoga Jesúíta, St. Ignatius Loyola. Í þessari kirkju flutti Pólýfónkórinn og hljómsveit undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar H-moll messu Bachs sumarið 1985. Komust færri að en vildu í þetta mikla og glæsilega guðshús. Rut á góðar minningar frá tónleikunum, þar sem hún var konsertmeistari.
Trevi-gosbrunnurinn er skammt frá Sant‘Ignazio. Þar var mikill fjöldi fólks eins og venjulega. Margir minnast gosbrunnsins úr kvikmynd Fellinis, La Dolce Vita, þar sem þau Marceollo Mastroianni og Antita Ekberg léku sér í vatni hans. Engum er ráðlagt að leika þetta eftir þeim, nema þeir vilji komast í kast við verði laganna. Fólki er hins vegar ráðlagt að kasta smápeningi í brunninn, aftur fyrir sig með hægri hendi yfir vinstri öxl. Með því sé tryggt, að menn komi aftur til Rómar. Rauði krossinn nýtur góðs af þeirri mynt, sem þarna finnst.
Tónleikar kvartettsins voru að þessu sinni klukkan 21.00 í Teatro Keiros við Padovaveg skammt frá Piazza Bologna, í norðausturhluta borgarinnar. Var nokkur spölur fyrir okkur Rut að fara þangað frá Trastevere.
Sífellt fleiri kjósa að koma á fót litlum leikhúsum eða tónleikasölum utan miðborgar Rómar. Þessi salur er neðanjarðar í orðsins fyllstu merkingu og bæði til leiksýninga og tónleika. Hann var þéttsetinn og var hljóðfæraleikurnum vel tekið. Umferðarþunginn og bílastæðaskorturinn er svo mikill í Róm, að margir láta það aftra sér frá því að sækja viðburði í miðborginni sjálfri.
Kvartettinn lék fyrst verkið eftir Beethoven. Síðan léku þau Una, Guðrún Hrund og Sigurgeir píanókvartett eftir Mozart í Es-dúr K 493 en Sebastiano Brusco lék á píanóið.