Þriðjudagur, 16. 02. 10.
Flugum frá Róm klukkan rúmlega 11.00 með EasyJet til London. Brtottför tafðist, þar sem tveir farþeganna sáust ekki um borð, þótt farangur þeirra hefði verið skráður á flugið og varð að fjarlægja hann.
Það rigndi í Róm í 8 stiga hitta. Enn meira rigndi í 6 stiga hita á Gatwick-flugvelli við London, þegar við lentum um 12.30 á staðartíma. Tókum langferðabíl til Heathrow (ferðin tók um klukkustund). Þaðan hélt Icelandair-vélin klukkan 21.00 og lenti á Keflavíkurflugvelli um miðnætti.
Sá við heimkomu, að Jóhanna Sigurðardóttir fagnaði því, að framkvæmdastjórn ESB ætlaði að senda þau boð til leiðtogaráðs sambandsins, að hefja mætti aðlögunarviðræður við Ísland, þegar ráðherrarnir vildu.
Miðað við stöðuna innan Evrópusambandsins, þar sem allt er nú á hverfanda hveli vegna fjárhagsvanda einstakra evru-ríkja með Grikkland í broddi fylkingar, er ólíklegt, að leiðtogarnir verði mjög með hugann við Ísland eða stækkun ESB á næsta fundi sínum.
Yfirlýsing Jóhönnu byggist ekki á raunsæju mati á stöðu mála innan ESB. Rangt stöðumat hennar í þessu efni kemur ekki á óvart. Samfylkingin stjórnast af hreinni ESB-óskhyggju. Raunveruleiki innan ESB eða í íslenskum stjórnmálum er hafður að engu, þegar að þessu óskamáli Jóhönnu og félaga kemur.