12.2.2010 18:08

Föstudagur 12. 02. 10.

 

 

Mikið rignir snemma morguns, síðan snjóar í Róm. Varð jörð hvít, þegar stórar blautar snjóflyksur féllu til jarðar.

Við fórum út rúmlega 11.00. Þá hafði stytt upp. Við tókum strætisvagn í breiðgötu, skammt frá okkur,  næst Tiber-fljóti. Ferðinni var heitið í Heilaga Pálskirkju, utan múra, eða San Paolo Fuori le Mura. Hún er í suðurhluta borgarinnar fyrir austan fljótið, utan margra ferðamannakorta. Þegar vagninn hafið farið yfir fljótið frá Trastevere og kom að eina pýramídanum í Róm, vissum við, að við værum á réttri leið. Við héldum kirkjuna vera skammt frá pýramídanum. Við spurðumst til vegar og var okkur þá sagt, að kirkjan væri í 2 km fjarlægð. Best væri fyrir okkur að halda áfram með vagni með sama númeri og við höfðum áður tekið. Tókum við því ráði og sáum ekki eftir því, enda hefði verið óskemmtilegt að arka þessa leið í bleytunni.

Árið 67 eða þar um bil, undir lok stjórnartíðar Nerós, keisara, var Páll postuli hálshöggvinn utan borgarmúra Rómar. Kristnir bræður hans lögðu líkamsleifar postulans til hvílu í 3 km fjarlægð í borg hinna dauðu (necropolis) við Via Ostiense. Þeir reistu þar lítinn minnisvarða, sem síðan varð að bænastað og basiliku. Þegar ofsóknum á hendur kristnum mönnum var hætt í Róm árið 313, hafði um þriðjungur íbúa borgarinnar tekið kristni eða hallast að kristnum sið. Um svipað leyti var basilikan reist utan múra til minningar um Pál postula. Gröfum fjölgaði einnig á staðnum, því að kristnir menn kusu að láta jarðsetja sig nálægt postulanum.

Hin fornfræga, glæsta kirkja helguð postulanum hefur um aldir dregið að sér pílagríma. Hún varð eldi að bráð árið 1823. Endurgerð kirkjunnar tók mið af upphaflegu byggingunni og unnt var að nota sama byggingarefni að nokkru leyti.

Árið 2006 var staðfest með fornleifarannsóknum, að líkamsleifar Páls postula eru nákvæmlega á þeim stað, þar sem Konstantín keisari lét reisa altari á fjórðu öld. Það var ekki fyrr en eftir 2006, að kirkjan komst í núverandi horf. Vegna fornleifarannsóknanna var háaltarið lokað. Nú má sjá þar niður í gröf Páls og við altarið eru einnig til sýnis hlekkir, sem hann bar, áður en hann var drepinn. Hátíðarárið 2000 vígði Jóhannes Páll páfi II nýjar heilagar dyr kirkjunnar.

Fyrir daga Péturskirkjunnar var Pálskirkjan utan múra hin stærsta í Róm.

Ferð okkar heim frá kirkjunni gekk ekki eins vel og til hennar. Strætisvagnar geta verið stopulir í Róm, það reyndum við bæði í gær, þegar við gáfumst upp að bíða vagns á tónleikastaðinn við Piazza Bologna og tókum leigubíl, og í dag, þar sem við áttum ekki annars kost en að bíða, þar sem við stóðum. Annað er ekki betra: engar leiðbeiningar eru í vögnunum um, hvar þeir stöðva eða hvernig tengingum við aðra vagna er háttað. Rómverjar virðast telja nóg að reka strætisvagnana fyrir staðkunnuga. Endastöð eins vagns, sem við sáum, er Piazza Thorvaldsen, svo að Rómverjar halda nafni Bertels Thorvaldsens enn á lofti.

Eftir langa bið úti í kuldanum og síðan eftir hringsól í hverfisvagni um þennan útjaðar Rómar benti vagnstjóri okkur á vagn, sem ók okkur aftur inn í miðborgina. Komum við þar á lokastöð við il Vittoriano minnismerkið risavaxna um Viktor Emmanúel, skammt frá Kapítól-hæð. Sumir kalla það „ritvélina“ í háðungarskyni aðrir „gervitanngarð Rómar“ eða „brúðartertuna“. Mikið af fornleifum hlýtur að hafa glatast, þegar þetta minnismerki um sameiningu Ítalíu og fyrsta konung landsins, var reist á árunum 1885 til 1911. Þar er einnig að finna minnismerki um óþekkta hermanninn.

Hver miði í strætisvagn kostar eina evru og gildir hann í 75 mínútur. Miðann má nota til að fara úr einum vagni í annan. Miðar eru ekki seldir í vögnunum heldur í kioskum eða tóbaksbúðum.

Í sjálfu sér var fróðlegt að aka um þetta borgarhverfi, sjá byggingar og mannlíf þennan kalda vetrardag. Augljóst er að yfirvöld hafa gefist upp fyrir veggjakroti, því að það setur ljótan svip á öll mannvirki. Yfirbragð borgarinnar verður sóðalegra en ella hefði verið vegna þess. Í miðborginni hafði víða verið borið salt á gangstéttar til að verjast hálku.

Lokatónleikar kvartettsins voru um kvöldið og hófust klukkan 21.00, þau fluttu Mozart-kvartettinn og síðan Mozart-píanókvartettinn með Sebastiano Brusca.

Víða hef ég farið með Rut og kynnst stöðum, sem ég hefði aldrei séð ella, þar sem efnt hefur verið til tónleika. Þessi tónleikastaður var þó hinn frumlegasti af þeim öllum. Gömlu bílaverkstæði við Piazza Dante hefur verið breytt í menningarmiðstöð í einkaeign með stóru eldhúsi og aðstöðu til að flytja tónlist, sýna myndlist og gera hvað annað, sem eigandinn kýs. Öllu er einstaklega vel fyrir komið. Á einum vegg má til dæmis sjá málverk látins götulistamanns, sem sögð eru mjög verðmæt núna, þótt þau hafi ekki verið hátt metin, á meðan listamaðurinn lifði.

Vegna þess hve kalt hafði verið úti og var enn, þurfti að setja hitaofna í tónleikasalinn.

Okkur var sagt, að hópurinn, sem þarna var 50 til 60 manns á öllum aldri og úr öllum stéttum, listamenn og fésýslumenn, Ítalir og útlendingar, héldi saman með fésbókarsíðu.

Þar til kvartettinn hóf leik sinn og á meðan gestir komu sér fyrir flutti gítareinleikari spænska tónlist. Síðar kom í ljós, að gítarleikarinn starfar sem lögreglumaður og vinnur þar meðal annars forvarnarstarf með því að vekja áhuga ungs fólks á klassískri tónlist.

Tónlist var flutt í hliðarsal, sem hefur líklega verið notaður undir tæki og tól, þegar gert var við bíla í húsakynnunum, hins vegar eru stórar dyr fyrir bíla á salnum, þar sem matast var og eldhúsinu. 

Tónleikunum lauk rúmlega 22.00 og þá var borin fram þríréttuð máltíð. Undir miðnætti yfirgáfum við Rut veisluna. Lögreglumaðurinn aðstoðaði okkur við að ná í leigubíl, pantaði hann á hverfisstöð lögreglunnar, skammt frá veislustaðnum, og hittum við þar starfsfélaga hans við vaktaskipti, um leið og við stigum í bílinn.