1.2.2010

Mánudagur, 01. 02. 10.

Merkilegt er að lesa um það á forsíðu Morgunblaðsins í dag, að norrænir stjórnmálamenn lengst til vinstri, hiki við að berjast fyrir málstað Íslands í þjóðþingum sínum, af því að þeir óttast, að það skaði stöðu vinstri-grænna í ríkisstjórn Jóhönnu. Með öðrum orðum samrýmist það ekki stefnu ríkisstjórnar Íslands að berjast fyrir því, að annars staðar á Norðurlöndum falli ríkisstjórnir frá þeirri fráleitu afstöðu að neita að gefa Alþjóðagjaldeyrissjóðnum grænt ljós, nema Íslendingar samþykki Icesave-afarkostina.

Á sömu forsíðu er þess getið, að Steingrímur J. sé á fundi með norrænum sósíalistum í Kaupmannahöfn. Hann hafi meðal annars hitt Kristínu Halvorsen, núverandi menntamálaráðherra Noregs, en hún sagði sem fjármálaráðherra, að Íslendingar yrðu gjalda þess, að hafa kosið yfir sig frjálshyggjumenn. Þá endurómaði hún ósk Steingríms J. um að skella Icesave-skuldinni á aðra en þá, sem sömdu um Icesave-afarkostina. Hvað skyldi Halvorsen segja eftir þennan fund sinn með Steingrími J.?

Afstaða ríkisstjórna Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar í Icesave-málinu er ekki stórmannleg. Pólverjar og Færeyingar létu Breta og Hollendinga ekki stjórna lánveitingum sínum til Íslendinga.