3.2.2010

Miðvikudagur, 03. 02. 10.

Á forsíðu DV er í dag birt mynd af mér með nokkrum öðrum. Ég hélt, að þessi miðill undir stjórn þeirra Hreins Loftssonar og Reynis Traustasonar væri hættur að hafa mig að skotspæni. Mér skilst, að nafn mitt og mynd þjóni þeim tilgangi hjá þeim félögum að sverta mannorð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Dögum saman hefur þessi Hreinsmiðill gert atlögu að Bjarna. Samkvæmt fréttum er talið, að þessi herferð blaðsins byggist á gögnum, sem 17 ára piltur náði út tölvum, án þess að hafa til þess heimild. Hann er sagður hafa farið á milli fjölmiðla og boðið þeim gögnin gegn greiðslu.

Í hádeginu sótti ég fjölmennan fund í Háskólanum í Reykjavík, þar sem Nanna Briem, geðlæknir, ræddi um siðblindu. Vilji menn kynna sér sögu siðblinds manns, ættu þeir að lesa bókina Stalín ungi eftir Simon Sebag Montefiore í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur, sem Skrudda gaf út nú fyrir jólin. Þegar ég hlustaði á erindi Nönnu, rann upp fyrir mér, að Stalín uppfyllti öll skilyrði til að kallast siðblindur eða síkkópat.

Aðför DV að einstaklingum undir ritstjórn Reynis Traustasonar má kenna við siðleysi en ekki siðblindu. Að þannig sé staðið að blaðamennsku í fjölmiðli í eigu hæstaréttarlögmanns styrkir ekki málstað blaðsins.

Í Fréttablaðinu í dag er Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, spurð um skrifin í DV . Í Fréttablaðinu segir:

„Það er náttúrlega ljóst að það er ólöglegt að versla með þýfi en fái fjölmiðill í hendur upplýsingar sem gætu verið illa fengnar eða brotið á einkarétti fólks, þá hlýtur að vera horft til þess hvort almannahagsmunir réttlæti birtingu.“

Þá segir Þóra Kristín flesta fjölmiðla hafa það fyrir vinnureglu að kaupa ekki upplýsingar en siðareglur BÍ taki ekki til þessa atriðis. „Mér er ekki kunnugt um hvernig því er farið í vinnureglum DV,“ segir formaðurinn.“

Af þessum orðum verður ráðið, að Þóra Kristín telur unnt að réttlæta birtingu DV  á stolnum skjölum gegn gjaldi. Hún telur þetta geta verið siðlegt, þar sem ekki sé tekið á málinu í siðareglum blaðamannafélagsins.

Bjarni Benediktsson sat fyrir svörum hjá Helga Seljan í Kastljósi og ræddu þeir mest þátt Bjarna í því máli, sem DV hefur haldið vakandi undanfarið. Bjarni gerði skilmerkilega grein fyrir sínum hlut. Að í honum felist saknæmt athæfi er af og frá. Lokapunktur Helga var að gera tortryggilegt, að hefði bankakerfið ekki hrunið, kynni Bjarni að hafa hagnast á því að hafa sem stjórnarformaður í BNT veitt Glitni tryggingu fyrir láni vegna endurfjármögnunar á eignarhluta í Glitni-banka. Við hrun Glitnis töpuðu allir hluthafar eign sinni í bankanum.