Laugardagur, 20. 02. 10.
Litlu munaði í spennandi keppni Menntaskólans við Hamrahlíð og Verslunarskóla Íslands í Gettu betur í sjónvarpinu í kvöld, aðeins 3 stigum, sem tryggðu VÍ sigur. Þegar ég horfi á þetta góða sjónvarpsefni, minntist ég þess frá menntamálaráðherratíð minni, þegar framhaldsskólanemar óttuðust, ekki að ástæðulausu, að sjónvarpið ætlaði að hætta að sýna þennan þátt. Mér var óskiljanlegt, hvað vakti fyrir stjórnendum sjónvarpsins. Þátturinn hélt áfram og nýtur alltaf endurnýjaðra vinsælda.
Eins og mér var þetta óskiljanlegt á sínum tíma skil ég ekki, að menntamálaráðuneytið skuli nú ákveða að taka upp hverfis-framhaldsskóla að nýju, þótt ekki sé nema að hluta. Er dapurlegt að fylgjast með því, hve meðalmennskan er að nýju farin að setja mikinn svip á skipulagsramma grunnskóla og framhaldsskóla.
Á sínum tíma ákvað ég, að birtar skyldu upplýsingar um frammistöðu nemenda í einstökum grunnskólum á samræmdum prófum, svo að foreldrar fengju upplýsingar um stöðu þeirra á þann kvarða. Nú er þetta úr sögunni og einnig samræmd próf sem inntökuskilyrði í framhaldsskóla. Þetta er spor aftur á bak. Rökin fyrir því eru ekki sterk og snúa frekar að hag grunnskólakennara en nemenda skólanna.
Ég er enn sömu skoðunar og áður, að hlutverk skóla sé að gera nemendum ljóst, að árangur næst ekki án erfiðis, og erfiði skilar árangri, sem er metinn að verðleikum.
Gettu betur hefur ekki aðeins gildi sem gott sjónvarpsefni heldur einnig til að styrkja og efla skólametnað. Hið sama gerist, ef unnt er að bera árangur skóla saman á samræmdan hátt. Vandinn er, að skólastjórnendur og kennarar eru ófúsir til þátttöku í slíkri keppni,