6.2.2010

Laugardagur 06. 02. 10

Uppgjörið milli og innan ríkisstjórnarflokkanna vegna Icesave hefur orðið háværara með hverjum degi vikunnar. Á þriðjudagskvöldið afneitaði Jóhanna einkavini Steingríms J. og samningamanni Íslands, Svavari Gestssyni. Á miðvikudag ávítaði Steingrímur J. Jóhönnu fyrir mannorðsveiðar. Í dag ritar Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar í utanríkisráðuneytinu, síðan grein í Fréttablaðið, þar sem hún ræðst á samningatæknina undir forystu Jóhönnu, Steingríms J. og Össurar. Kristrún minnir réttilega á með grein sinni, að utanríkisráðherra er að sjálfsögðu ekki stikkfrí í þessu milliríkjamáli, þótt Össur vilji ekki ræða annað í tengslum við það en hvort nokkur truflun sé á ESB-aðlögunarferlinu  vegna Icesave.

Þetta hefur verið erfið vika fyrir ríkisstjórnina. Upplausn er innan hennar vegna vaxandi vantrúar flokksmanna á Jóhönnu annars vegar og Steingrími J. hins vegar. Vinstri-grænar kjósa að þegja í sínum hópi um Icesave, segi þeir eitthvað, geta þeir ekki annað en gagnrýnt Steingrím J. og Svavar. Sneypuför Jóhönnu til Brussel, þar sem hún lét undir höfuð leggjast að kynna málstað Íslands fyrir evrópskum blaðamönnum, ætti að sýna öllum svart á hvítu, að Samfylkingunni er ekki unnt að treysta til að halda á málstað Íslands gagnvart Evrópusambandinu.

Í ljós er að koma, að ríkisstjórnir annars staðar á Norðurlöndum telja sig standa í ístaðið fyrir ríkisstjórn Íslands, þegar þær skirrast við að ganga formlega frá lánveitingum til Íslands og opna á afgreiðslu íslenskra mála hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þær hafa skilið boðskap íslenskra ráðherra á þann veg, að með töfum á afgreiðslu lánanna sé unnt að hræða Íslendinga til að sætta sig við Icesave-afarkostina.

Við þessar ömurlegu aðstæður við stjórn landsins hafa meira en 100.000 manns hugað að öðru og séð kvikmyndina Avatar og bættist ég í þann hóp í dag mér til ánægju og undrunar yfir hinni ótrúlegu tækni, sem beitt er við gerð myndarinnar.