14.2.2010 15:41

Sunnudagur, 14. 02. 10.

 

Þurrt og bjart veður í Róm og heldur hlýrra en síðustu daga.

Ég fór fyrir hádegi í Maríukirkjuna í Trastevere, Santa Maria in Trastevere. Í ferðamannabókum segir, að hún sé líklega fyrsta kirkjan í Róm, sem hafi verið helguð heilagri Maríu guðsmóður. Núverandi gerð hennar má rekja til 13. aldar.

Að lokinni heimsókn í kirkjuna gekk ég upp nokkuð bratta hæð að minnismerki um Garibaldi, herforingjann fræga, sem andaðist 1895, eftir að hafa barist fyrir sameiningu og frelsi Ítalíu. Frá styttunni blasir gamla Róm við austan við Tiber-fljót.

Á torgi fyrir framan styttuna var margt manna og mikið fjör, fjölskyldur með börn í grímubúningum.

Á leið niður af hæðinni skoðaði ég minnismerki um þá, sem börðust með Garibaldi í Róm. Þangað kom glaður hópur brúðkaupsgesta og lét taka af sér mynd með brúðinni og brúðgumanum.

Skammt frá minnismerkinu er Péturskirkjan í Montorio, San Pietro in Montorio, í garði hennar, sem er hluti af spænska sendiráðinu, (á sínum tíma reisti spænska konungsfjölskyldan klaustur á þessum stað), stendur Tempietto eftir Bramante, hringlaga minnismerki, reist 1499 til 1502  nákvæmlega á þeim stað, þar sem sagt er, að Pétur postuli hafi dáið píslarvættisdauða. Nokkrir kílómetrar eru frá þessum stað til Vatíkansins og Péturskirkjunnar, sem reist er á gröf postulans. Þykir þessi minnisvarði um dauða Péturs einstaklega fallegur vitnisburður um hábyggingarlist endurreisnartímans.

Síðdegis fórum við í aðra Maríukirkju, Santa Maria Maggiore, (maggiore: mikill). Kirkjunni er skipaður sess með hinum stórkirkjunum, sem við Rut höfum skoðað að þessu sinni: Péturskirkjunni, Pálskirkjunni utan múra og Jóhannesarkirkjunni í Laterano. Samkvæmt lögum frá 1929 njóta þessar fjórar kirkjur úrlendisréttar eða réttarstöðu sem hluti Vatíkansins. Þær eru allar með heilagar dyr, sem opnaðar eru samkvæmt sömu formlegu reglum.

Goðsögn frá 14. öld hermir, að heilög María mey hafi birst Liberiusi páfa og Jóhannesi, rómverskum patríarka, nóttina 4. ágúst 352 og sagt þeim að reisa kirkju, þar sem þeir sæju snjóföl morguninn eftir. Hún markaði grunn kirkjunnar. Sýnin rættist. Liberius gerði eins og fyrir hann var lagt. Páfamessa er sungin 5. ágúst ár hvert í Maríkukirkjunni miklu til að minnast snjókomunnar.

Núverandi gerð kirkjunnar er frá 17. til 19. aldar. Eftir að kirkjuþingið í Efesus hafði lýst yfir því hátíðlega árið 431, að hin blessaða mey væri móðir guðs, lét Sixtus III. páfi reisa kirkju á þeim stað, sem Liberius markaði. Síðan hefur dýrkun Maríu verið hluti af boðskap kaþólsku kirkjunnar.

Við vorum í Maríukirkjunni í sama mund og messa var að hefjast klukkan 18.00. Var hún óvenjulega hátíðleg, því að patríarki Maróníta var þar heiðursgestur. Marónítar eru kaþólskur trúarhópur, sem á rætur í Sýrlandi og Líbanon. Kynntumst við Kjartan Gunnarsson honum, þegar við fórum til Líbanon í upphafi níunda áratugarins. Francois Jabre, aðalræðismaður Íslands í Beirút, er Maróníti og bauð okkur til kvöldverðar með forystumönnum í alþjóðahreyfingu safnaðarins. Við messuna í Maríukirkjunni var þess minnst, að 1600 ár eru liðin frá dauða heilags Marons.

Um kvöldið fórum við á Trattoria da „Giggetto“ veitingastað við Portico d‘Ottavia, rétt við Tíber-fljót, skammt frá bænahúsinu í gyðingahverfi Rómar. Þar er unnt að fá íslenskan saltfisk og er hann kynntur sérstaklega í anddyri veitingastaðarins. Antonello La Rocca, aðalræðismaður Íslands, var gestgjafi okkar, en faðir hans og síðan hann hafa í marga áratugi flutt inn saltfisk frá Íslandi. Við fengum okkur saltfisk í forrétt og reyndist hann einstaklega góður með grilluðum ætiþistli að hætti gyðinga og hrísgrjónabollu.  Sameinar matseldin gyðinglega og rómverska list á þessu sviði.