19.2.2010

Föstudagur, 19. 02. 10.

Í gær sagði ég hér á síðunni frá efni sendiskýrslu eftir Sam Watson, forstöðumann bandaríska sendiráðsins, um samtöl hans við íslenska embættismenn og breska sendiherrann í Reykjavík um Icesave-málið. 

Steingrímur J. Sigfússon, sem hefur haft forystu í Icesave-málinu af hálfu ríkisstjórnarinnar, sagðist ekki hafa vitað um þessa fundi íslensku stjórnarerindrekanna.

Össur Skarphéðinsson sagðist hins vegar fagna því, hve starfsmenn hans hefðu verið orðhvatir, enda hefði hann sjálfur verið mjög æstur vegna málsins á þessum tíma, viku eftir neitun Ólafs Ragnars. Ekki hefði verið ámælsivert af sendiherra að segja forseta Íslands óútreiknanlegan.

Allt endurspeglar þetta upplausn í stjórnarráðinu vegna málsins, enda er allt loft  úr ríkisstjórninni í því. Ráðherrarnir hafa flúið frá stefnu, sem þeir töldu eina bjargráð þjóðarinnar fyrir áramót. Í staðinn segja þeir, að eitthvað nýtt muni gerast á morgun eða hinn!

Jóhanna lét í það skína í gær, að þjóðaratkvæðagreiðslunni yrði frestað vegna tafa við útgáfu á skýrslu rannsóknarnefndir alþingis. Í dag sagðist hún ekki vita, hvenær skýrslan birtist en degi atkvæðagreiðslunnar yrði ekki breytt.

Svo virðist sem viðræðunefndin, sem var í London og ræddi við forystumenn stjórnmálaflokkana í morgun, hafi komið Jóhönnu niður á jörðina og sannfært hana um, að óráðlegt væri að hringla með þjóðaratkvæðagreiðsludaginn.