8.6.2006 10:00

Fimmtudagur, 08. 06. 06.

Klukkan 18.00 var kveðjuhóf fyrir fráfarandi borgarstjórn í Höfða, en við erum sex, sem hverfum nú úr borgarstjórninni: Alfreð Þorsteinsson, Anna Kristinsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir auk mín.

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm vegna kæru Ragnars Aðalsteinssonar hrl. fyrir hönd Jóns Ólafssonar, sem kenndur er við Skífuna, vegna rannsóknar efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í skattamáli Jóns. Ragnar krafðist þess að rannsóknin yrði felld niður meðal annars, af því að ríkislögreglustjóri væri vanhæfur, þar sem ég hefði veist að Jóni í borgarstjórn 18. desember 2003 og hér á vefsíðu minni og tengdust þær ávirðingar málinu.

Er þetta í annað sinn, sem borið er undir hæstarétt, hvort unnt sé að halda áfram sakamáli vegna ummæla minna. Í báðum tilvikum hefur rétturinn komist að þeirri niðurstöðu, að ég hafi frelsi til að tala og skrifa á þann veg, sem ég hef gert, án þess að spilla fyrir framgangi réttvísinnar. Ég er dáilítið undrandi á því, að Ragnar Aðalsteinsson hrl. skuli vilja þrengja málfrelsi stjórnmálamanna á þann veg, sem fram kemur í kæru hans. Ragnar hefur gengið fram fyrir skjöldu sem málsvari mannréttinda og fátt er mikilvægara í frjálsu þjóðfélagi en rétturinn til að tjá sig opinberlega án tillits til stéttar og stöðu.

Hér kemur sá kafli úr dómi hæstaréttar, sem um þetta snýst:

„Varnaraðili hefur haldið því fram að tiltekin ummæli fyrrverandi forsætisráðherra valdi því að ríkislögreglustjóri sé vanhæfur til að fara með rannsóknina. Málefni lögreglu heyra ekki undir forsætisráðherra og verður ekki fallist á að ummæli, sem þáverandi forsætisráðherra lét falla um hann, geti valdið vanhæfi ríkislögreglustjóra í málinu eða leitt til röskunar á rétti varnaraðila til að teljast saklaus þar til sekt sé sönnuð.

Varnaraðili hefur lagt fram í málinu endurrit ræðu sem dómsmálaráðherra hélt á fundi í borgarstjórn Reykjavíkur 18. desember 2003. Gat hann þess meðal annars í ræðunni að meiri hluti borgarstjórnar hafi ákveðið að kaupa tiltekna fasteign af varnaraðila en hann hafi nú „selt allar eigur sínar á Íslandi í skjóli nætur, eins og frægt er orðið.“ Ummæli þessi um fasteignaviðskipti varnaraðila eru að vísu óvægin en geta ekki valdið vanhæfi ríkislögreglustjóra til að stjórna opinberri rannsókn á skattskilum varnaraðila, enda verður að líta svo á, þegar hlutverk ríkislögreglustjóra samkvæmt 5. gr. lögreglulaga er virt í ljósi ákvæða IX. kafla laga nr. 19/1991, að hann lúti ekki fyrirmælum dómsmálaráðherra um rannsóknina.

Þá hefur varnaraðili lagt fram afrit af ummælum sem dómsmálaráðherra viðhafði í pistli á tiltekinni vefsíðu. Tók ráðherrann þar upp í beinni tilvitnun ummæli sem þáverandi forsætisráðherra hafði viðhaft á öðrum vettvangi um varnaraðila, með eftirfarandi hætti: „Í þættinum með Þorfinni Ómarssyni 20. desember var Einar Kárason þeirrar skoðunar, að málfrelsi Davíðs Oddsonar væri of mikið, ef hann mætti segja eftirfarandi orð refsilaust, þegar hann ræddi um viðskipti Kaupþings/Búnaðarbanka og [X] í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins 21. nóvember 2003: „Og maður hefur þá tilfinningu að þar með sé auðvelt að skjóta undan fjármunum þannig að ríkisvaldið eigi miklu erfiðara ef að skattaálagning verður í samræmi við skattrannsókn að ná til sín þeim fjármunum sem þarna eru á ferðinni. Þetta hafði allt þann brag að þarna væri verið að kaupa og selja þýfi í mínum huga.“ Raunar kemur mér ekki á óvart, að Einar Kárason telji, að málfrelsi eigi að takmarka, þegar vikið er að þeim sem njóta samúðar hans.“ Hélt ráðherrann áfram og rakti dæmi um skoðanir fyrrgreinds manns á því hvernig ráðherrann sjálfur hafi „farið út á ystu nöf málfrelsisins“ með tilgreindum ummælum í umfjöllun um annað mál, óskylt því sem hér er til umfjöllunar. Virða verður framangreind ummæli dómsmálaráðherra í því samhengi sem þau voru sett fram í umræðu um málfrelsi manna og verður ekki talið að með því að endurtaka tilvitnuð ummæli þáverandi forsætisráðherra á þennan hátt hafi dómsmálaráðherra gert þau ummæli að sínum. Þá lýtur ríkislögreglustjóri eins og fyrr greinir ekki fyrirmælum dómsmálaráðherra um rannsókn mála og geta ummælin því ekki valdið vanhæfi ríkislögreglustjóra til að stjórna henni. Með sömu rökum verður ekki fallist á með varnaraðila að vegna ummælanna hafi verið brotið gegn rétti hans til að teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð.“