11.6.2006 19:54

Sunnudagur, 11. 06. 06.

Var klukkan 10.00 við Fossvogskapellu, þar sem látinna sjómanna var minnst við öldurnar, sem geyma nöfn rúmlega 300 sjómanna, sem farist hafa á hafi úti síðan á fjórða áratugnum. Séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur flutti bæn og ritningarorð, Ásgeir H. Steingrímsson trompettleikari lék og starfsmenn landhelgisgæslunnar stóðu heiðursvörð.

Klukkan 11.00 var ég við sjómannamessu í Dómkirkjunni, þar sem séra Hjálmar þjónaði fyrir altari en herra Karl Sigurbjörnsson biskup prédikaði.

Eftir hádegi fórum við í Krók í Garðabæ, lítinn bárujárnsklæddan burstabæ, sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923, þar var búið til ársins 1985, þegar Þorbjörg Stefanía Guðjónsdóttir, sem þar bjó lést, en hún og maður hennar Vilmundur Gíslason höfðu búið í Króki síðan 1934. Afkomendur Þorbjargar og Vilmundar í Króki gáfu Garðabæ bæinn ásamt útihúsum og innbúi árið 1998 með því skilyrði að bærinn yrði endurbyggður og nú er hann opinn fjórða sumarið síðdegis á sunnudögum og er vel þess virði að gera sér ferð í Krók og skoða það, sem þar er að sjá.

Við litum einnig inn í hið fallega náttúrugripasafn í Kópavogi og fyrir utan að skoða safnið var ánægjulegt að sjá þar leirstyttur Guðmundar frá Miðdal af fuglum og dýrum af norðurslóðum.