1.6.2006 20:31

Fimmtudagur, 01. 06. 06.

Þess er minnst núna, að 30 ár eru liðin frá því að ritað var undir samning Íslendinga og Breta um lyktir síðasta þorskastríðsins - en í samningnum fólst viðurkenning á yfirráðum okkar yfir 200 mílunum. Ég var ekki í Ósló, þar sem ritað var undir samninginn, en ég fylgdist náið með framvindu þorskastríðsins sem embættismaður í forsætisráðuneytinu auk þess sem ég sat fundi landhelgisnefndar og ritaði þar fundargerðir.

Ég heyrði í fréttum NFS að Bretar hefðu slitið stjórnmálasambandi við Íslendinga í síðasta þorskastríðinu - þessu var hins vegar öfugt farið, íslensk stjórnvöld slitu stjórnmálasambandinu við Breta og vinur minn Kenneth East sendiherra varð að hverfa af landi brott en kom síðan aftur og var hér sendiherra til ársins 1980, þegar hann hætti fyrir aldurs sakir. Hann er enn á lífi og hefur til skamms tíma komið hingað reglulega - eitt sinn tók ég viðtal við hann fyrir sjónvarpið með skömmum fyrirvara, en þá var ég menntamálaráðherra.

Landsstjórn Framsóknarflokksins kom saman til fundar í dag og ræddi úrslit sveitarstjórnarkosninganna í ljósi flokkshagsmuna og var ákveðið að kalla miðstjórn saman til fundar 9. júní. Framsóknarmenn vilja greina úrslitin og ræða viðbrögð við þeim.

Enn er sama þögnin innan Samfylkingarinnar um niðurstöður kosninganna, þaðan berast ekki neinar fréttir af fundum um úrslitin. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fráfarandi borgarstjóri, sagði að vísu í gær í sjónvarpsviðtali, að hún hefði náð betri árangri en Dagur B.