2.6.2006 0:23

Föstudagur, 02. 06. 06.

Hið fyrsta sem ég gerði í morgun var að senda þetta tölvubréf til Þorsteins Pálssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, með afriti til Jóhanns Haukssonar, blaðamanns við blaðið:

„Í Fréttablaðinu í dag ræðst Jóhann Hauksson þingfréttaritari blaðsins á ómaklegan hátt að föður mínum vegna símahlerana á árunum 1949 til 1968 um hann segir í blaðinu, að hann hafi ráðið „mestu um slíkar hleranir á sínum tíma“. Fyrir liggur sagnfræðileg rannsókn, sem sýnir, að í öllum tilvikum, sem hér er um að ræða tók sakadómari ákvarðanir um hleranir eftir að hafa fengið um það tilmæli frá dómsmálaráðuneyti en framkvæmd hlerana var í höndum lögreglu. Orð blaðamannsins standast ekki frekar en unnt er að halda því fram almennt, að þeir, sem leggi mál fyrir dómara, taki ákvörðun um niðurstöðu hans, hún ræðst af mati dómarans á því, sem fyrir hann er lagt.

Hitt er síðan einkennilegt að snúa því upp í afskipti ráðherra að nauðynlegt sé við rannsókn mála að fá skjöl frá þremur ráðuneytum forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti og dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Ef skoðun blaðamannsins á afskiptum mínum af afhendingu þessara skjala byggist á því, að ég muni standa í vegi fyrir slíkri afhendingu, er um rakalausan misskilning að ræða. Ég er eindreginn talsmaður þess að öll gögn varðandi kalda stríðið verði lögð á borðið í samræmi við það, sem segir í þingsályktunartillögu forsætisráðherra.

Ég get ekki annað en harmað þá meðferð sem þetta mál fær á síðum Fréttablaðsins, hún sýnir, að enn eru hér menn, sem geta ekki rætt þessi mál, án þess að reyna að koma höggi á einstaklinga, jafnvel þótt látnir séu.“

Ég fékk ekkert svar við þessu bréfi, hvorki frá ritstjóranum né blaðamanninum.

Tugir mála voru afgreidd og gerð að lögum á alþingi í dag, þar á meðal frumvarpið um nýskipan lögreglumála, sem unnið hefur verið að síðan haustið 2003. Var víðtæk samstaða um frumvarpið við lokaafgreiðslu þess og allur annar tónn í þingmönnum stjórnarandstöðunnar. eftir að þeir kynntu sér efni þess, en þegar það sá dagsins ljós.