13.6.2006 22:28

Þriðjudagur, 13. 06. 06.

Gleðidagur fyrir Reykvíkinga, þegar nýr meirihluti tekur við völdum í borgarstjórn og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson verður borgarstjóri og Hanna Birna Kristjánsdóttir forseti borgarstjórnar.

Þegar skoðað er, hvernig verkum er skipt milli sjálfstæðismanna og framsóknarmannsins í borgarstjórn, sést, að allt talið undanfarna daga um óeðlileg mikil völd og áhrif framsóknarmannsins hefur einfaldlega verið spuni úr andstæðingum sjálfstæðismanna, sem fjölmiðlamenn hafa endurtekið. Hallgrímur Thorsteinsson á NFS má eiga það, að hann var farinn að átta sig á spunanum og varaði við því, að taka hann trúanlegan - skiptin yrðu líklega 30/70 sjálfstæðismönnum í vil. Líklega er það nálægt sanni, séu áhrif sjálfstæðismanna ekki meiri en 70%.

Sumarhefti Þjóðmála undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar kom út í dag og setja greinar um varnarmálin og hrakspárnar um útrásina strekan svip á tímaritið að þessu sinni. Þjóðmál  eru lifandi og skemmtilegur umræðuvettvangur. Hvet ég lesendur síðu minnar til að kynna sér tímaritið, en á netinu er unnt að gerast áskrifandi á www.andriki.is