14.6.2006 19:02

Miðvikudagur, 14. 06. 06.

Evrópunefnd kom saman í hádeginu.

Ef marka má leiðarann í Fréttablaðinu í dag hefur litla bréfið, sem ég sendi Þorsteini Pálssyni, ritstjóra blaðsins, 2. júní valdið miklu uppnámi á ritstjórn blaðsins. Jón Kaldal, höfundur leiðarans, en hann ber fyrirsögnina: Björn Bjarnason og Fréttablaðið kallar mig „holdgerving“ þeirra manna, sem „hafa haft horn í síðu blaðsins allt frá því það var stofnað fyrir ríflega fimm árum.“ Hvorki meira né minna og Jón líkir mér við „hrekkjusvín“, en í Íslenskri orðabók er orðinu lýst á þennan veg: (yfirleitt barnamál) síhrekkjandi krakki (sjaldnar fullorðinn).

Jón Kaldal segir í upphafi leiðarans:

„Einhver fjarstæðukenndasta kenning sem lengi hefur skotið upp kollinum er sú hugmynd að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hafi áhrif á hvernig málum er háttað á ritstjórn Fréttablaðsins. Það er fullkomin della, eins og öllum má vera ljóst, nema ef til vill þeim sem hefur kalið hjarta við of miklar bollaleggingar um bláa hönd.“

Hallgrímur Helgason, höfundur bláu handarinnar, fær þarna óblíða kveðju.

Jón Kaldal tekur fram, að blaðamönnum Fréttablaðsins hafi tekist „bærilega að hefja sig yfir þessi ónot dómsmálaráðherra“ þeir hafi freistað þess eins og unnt sé að hafa samskipti við mig á „sömu forsendum og samskipti við aðra ráðamenn landsins, þrátt fyrir að sá samstarfsvilji hafi ekki alltaf verið gagnkvæmur.“ Hér hefði Jón mátt vera skýrmæltari. Samskipti mín við blaðamenn Fréttablaðsins eru á þann veg, að ég leitast við að svara þeim spurningum, sem þeir senda mér í tölvupósti, þar sem blaðið fylgir þeirri reglu að gefa viðmælendum sínum ekki færi á því að lesa yfir, sem eftir þeim er haft.

Undir lok leiðarans segir Jón Kaldal:

„Rétt er að benda á að eina heimildin fyrir því að skoðanir dómsmálaráðherra hafi haft áhrif á tilfærslu Jóhanns (Haukssonar innan ritstjórnar Fréttablaðsins innsk. mitt) er hann sjálfur. Í því samhengi er hitt miklu mikilvægara að ef blaðamönnum Fréttablaðsins dytti í hug eina sekúndu að skoðanir Björns Bjarnasonar hefðu nokkuð með mannahald blaðsins að gera, er hægt að fullyrða að allsherjar uppreisn yrði gerð á ritstjórninni. - Það hefur ekki gerst og segir meira en mörg orð.“

Þessi orð Jóns Kaldals sýna, að bréf mitt hefði frekar átt að styrkja stöðu Jóhanns Haukssonar innan ritstjórnar Fréttablasðins en veikja! Það dugði honum hins vegar ekki, þegar hann stóð frammi fyrir skipulagsbreytingum.