23.6.2006 19:06

Föstudagur, 23. 06. 06.

Klukkan 10. 40 kom Rita Kieber-Beck, utanríkisráðherra Liechtenstein og fylgdarlið, til fundar við mig í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og ræddum við störf Evrópunefndar og Schengensamstarfið, en Liechtenstein er að gerast aðili að því.

Klukkan 15.00 flutti ég hátíðarræðu í Háskólabíói við útskrift hjá endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.

Á meðan ég var erlendis kom síðan eða færsla á hana 15. mars 2006 til umræðu í málflutningi vegna Baugsmálsins og var þess krafist, að settur ríkissaksóknari yrði lýstur vanhæfur vegna orða minna þar. Þá sé ég, að G. Pétur Matthíasson, fréttamaður sjónvarps, mun hafa sagt frá því á pressukvöldi blaðamannafélagsins, að hann hafi hætt að lesa vefsíðu mína, af því að hann treysti sér ekki til að fjalla um mál, sem tengdust mér, ef hann héldi að lesa hina ósanngjörnu gagnrýni mína í sinn garð.

Ólafur Teitur Guðnason segir frá því í Viðskiptablaðinu í dag, að hann hafi af þessu tilefni grandskoðað síðuna mína til að leita að því, sem særði G. Pétur og fann hann færslu 30. maí 1998 og aðra 7. júní 1998. Ólafur Teitur telur greinilega ástæðulaust fyrir G. Pétur að hætta að lesa síðuna mína af þessu tilefni. Gaman væri að Ólafur Teitur kannaði hve oft og af hvaða tilefni G. Pétur hefði fjallað um mig eða mál mér tengd síðan 1998. Hvað skyldi G. Pétur hafa sagt frá mörgum þingmálum mínum í vetur sem þingfréttaritari sjónvarps? Ég hef hreinlega ekki hugmynd um það og kippi mér ekki upp, hvort þau eru fleiri eða færri.