Gildi endurmenntunar.
Ræða við útskrift endurmenntunar HÍ. 23. júní 2006.
Ég óska ykkur öllum til hamingju, sem útskrifist hér í dag. Árangurinn, sem þið hafið náð, er til marks um, að þið hafið lagt hart að ykkur við nám og störf. Það er vissulega meira en að segja það, að taka sér fyrir hendur að stunda háskólanám með venjulegri vinnu. Hitt er ljóst, að þið hefðuð ekki lagt þetta á ykkur nema vegna þess, að námið hefur verið gefandi og veitt ykkur aukna lífsfyllingu.
Ég óska Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, kennurum og starfsfólki einnig til hamingju með daginn. Stofnunin er merkur brautryðjandi á sínu sviði og fyrirmynd um endurmenntun og símenntun, sem setur æ meiri svip á þjóðlífið, og vex fiskur um hrygg með hverju ári, sem líður.
Duglegir og áhugasamir nemendur eru ekki hinir einu, sem laðast að endurmennunarstofnun, heldur einnig ráðuneyti, stofnanir og fyrirtæki, sem eru að leita og góðri og öruggri menntunarþjónustu. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið samdi þannig við stofnunina um réttindanám fyrir þá sem vilja öðlast löggildingu sem fasteigna-, fyrirtækja- og skipasalar. Þetta er 30 eininga nám á háskólastigi og er fyrsti hópurinn að útskrifast hér í dag.
Þá samdi Lögregluskóli ríkisins á sínum tíma við endurmenntunarstofnunina og hófst stjórnendanám í samvinnu þessara menntastofnana fyrst haustið 2003 og er þriðji hópurinn að útskrifast að þessu sinni.
Fyrir hönd ráðuneytis míns og lögregluskólans vil ég nota þetta tækifæri til að þakka sérstaklega fyrir samstarfið við endurmenntunarstofnun.
Góð reynsla af starfi endurmenntunarstofnunar, sem er sjálfstæð, þótt hún sé undir handarjaðri Háskóla Íslands, varð til að styrkja mig í trú á því, hve mikilvægt væri að breyta lagaumhverfi háskólastofnana til þess að tryggja góða framtíð sjálfstæðra eða einkarekinna háskóla.
Eftir setningu háskólalaganna 1997 hefur vöxtur Háskólans í Reykjavík, Viðskiptaháskólans á Bifröst og Listaháskóla Íslands verið miklu hraðari en nokkur vænti. Starf skólanna hefur jafnframt orðið til þess að ýta undir aðsókn að öðrum háskólum fyrir utan að auka almennt áhuga Íslendinga á háskólamenntun.
*
Fyrir rúmri viku varð mikil breyting á ríkisstjórninni og þrír nýir ráðherrar komu til setu í henni, auk þess sem tveir í hópnum færðust í ný embætti. Á fundum í tilefni af þessu var mér hugsað til þess, hve mikil viðbrigðin eru fyrir þá, sem með stuttum eða jafnvel engum fyrirvara eru kallaðir til starfa í ríkisstjórn.
Ég minnist þess, þegar ég þetta reyndi þetta í fyrsta sinn laugardaginn 23. apríl 1995 og ég var kallaður úr kvöldverði með erlendum vinum á heimili mínu á þingflokksfund og kom þaðan út sem menntamálaráðherra.
Hvergi er í boði neitt nám, endurmenntun eða annað, sem býr fólk sérstaklega undir ráðherrastörf eða stjórnmálastörf almennt. Líklega yrði sá litinn hornauga, sem segðist væri að afla sér menntunar í því skyni að búa sig undir að verða ráðherra. Yfirlýsingar í þá veru kynnu beinlínis að verða eiganda þeirra fjötur um fót, ef hann færi í prófkjör eða framboð. Hent yrði gaman að því, að hann hefði sagst vera að afla sér menntunar til þess að verða betur í stakk búinn til að starfa í ríkisstjórn.
Þegar rætt er um störf ráðherra og hlutskipti þeirra á vinnustað, dettur mörgum vafalaust í hug breski sjónvarpsþátturinn Já,ráðherra. Eins og við munum snerist þráður þeirra um baráttu ráðherrans við embættismannakerfið. Spurningin var, hvor hefði betur ráðherrann eða ráðuneytisstjórinn – hinn fávísi stjórnmálamaður eða hinn klóki ráðuneytisstjóri, sem þekkti leyndardóma stjórnsýslunnar.
*
Árið 2000 stundaði ég í eina viku endurmenntunarnám, leiðtoganám í John F. Kennedy School of Government í Harvard. Það var skemmtileg tilbreyting frá ráðherrastörfum að setjast á skólabekk en kennslan byggðist á fyrirlestrum og virkri þátttöku nemenda. Þeir voru að meirihluta háttsettir embættismenn í bandarískum ráðuneytum eða ríkisstofnunum auk erlendra nemenda.
Okkur var meðal annars skipt í verkefnahópa og falið að leggja fyrir þá raunhæf úrlausnarefni af starfsvettvangi okkar og ræða ólíkar leiðir að því markmiði, sem við hefðum sett. Ég lagði fyrir minn hóp, hvernig best væri að hrinda í framkvæmd áformum, sem ég hafði þá þegar kynnt um, að nemendur í framhaldsskólum ættu sjálfir fartölvur og stuðlað yrði að sem mestri notkun þeirra við kennslu með þráðlausu netsambandi.
Var ómetanlegt fyrir mig, að fá þetta tækifæri til að ræða úrlausn þessa viðamikla verkefnis við samnemendur mína og auðvelduðu rökræður okkar mér að glíma við ýmis ljón á veginum. Aðferðafræðina, sem ég kynntist þarna, hef ég síðan nýtt mér við framkvæmd ýmissa flókinna verkefna, nú síðast við nýskipan lögreglumála, en alþingi samþykkti hana með lögum 2. júní síðastliðinn.
Af því, sem ég kynntist í endurmenntunarnámi mínu, þótti mér sérstaklega eftirminnilegt að hlusta á fyrirlestra, sem byggðust á því að brjóta einstakar sögulegar ákvarðanir ólíkra Bandaríkjaforseta til mergjar og leggja mat á, hvernig að töku þeirra var staðið og hvort þær hefðu skilað því, sem að var stefnt.
Ástæða er til að velta því fyrir sér, hvort íslenskir fræðimenn eða reynslumiklir menn innan stjórnsýslunnar eða við rekstur fyrirtækja, hafa tekið sér nægilega markvisst fyrir hendur að skoða til hlítar einstök söguleg, íslensk atvik eða ákvarðanir og leggja út af þeim, til að reynslan geti orðið öðrum til leiðbeiningar eða gagns.
Athuganir af þessu tagi byggjast ekki endilega á því að taka afstöðu með eða á móti einhverri ákvörðun. Tilgangurinn er að bregða ljósi á ferli og niðurstöðu.
Þegar alþingi lauk nú fyrir fáeinum vikum voru tugir frumvarpa og ályktana afgreidd eins og á færibandi á tveimur sólarhringum – samt var mest rætt í fjölmiðlum um tvö frumvörp, sem ekki náðu samþykki, það er um ríkisútvarpið og nýsköpunarmiðstöð. Fjölmiðlar ræddu þó ekki sérstaklega efni þessara frumvarpa heldur létu þeir og stjórnarandstaðan í veðri vaka, að það sýndi dugleysi ríkisstjórnar og einstakra ráðherra, að þau hefðu ekki verið samþykkt.
*
Auðvelt er að færa fyrir því rök, að saga þessara tveggja frumvarpa, efni þeirra og örlög á þingi í vor, gætu brugðið góðu og spennandi ljósi á ferli við töku ákvarðana innan stofnana ríkisins, í ráðuneytum og á alþingi.
Segja má, að allt frá því að útvarpsrekstur var gefinn frjáls hér á landi fyrir rúmum 20 árum, hafi staðið fyrir dyrum að setja ríkisútvarpinu ný lög til að búa það undir samkeppni. Þetta hefur þó ekki tekist enn þann dag í dag.
Almenn útvarpslög, þar sem einokun ríkisútvarpsins var afnumin, voru sett, án þess að hróflað væri við lagaákvæðum um ríkisútvarpið, þar sem ekki var nein samstaða um breytingar á þeim. Í vor var frumvarp um að breyta ríkisútvarpinu í hlutafélag í eigu ríkisins komið langt í þriðju og lokaumræðu á þingi, þegar henni var hætt til að greiða fyrir öðrum þingmálum að ósk stjórnarandstöðunnar. Eftir að komið var til móts við óskina, var stjórnarandstaðan fyrst til að ráðast á menntamálaráðherra fyrir að ná málinu ekki í gegn!
Raunar er sérstakt athugunarefni, hvers vegna það reynist svona erfitt að hrófla við lögum, sem snerta fjölmiðlana og að sjálfsögðu á að skoða rimmuna út af fjölmiðlalögunum sumarið 2004 út frá öðru en lögfræðilegum álitaefnum og ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það sjónarhorn er í raun alltof þröngt miðað við þá hagsmuni, sem voru og eru í húfi.
Góðir áheyrendur!
Mér er þetta allt ofarlega í huga hér, þegar ég fæ tækifæri til að flytja ávarp við útskrift nemenda, sem hafa lagt á sig mikið nám samhliða starfi og fengið tækifæri til þess í náminu að fjalla um viðfangsefni af starfsvettvangi sínum. Ég er þess fullviss, að námið hefur víkkað sjóndeildarhring ykkar um leið og það auðveldar ykkur að takast á við dagleg verkefni.
Að sjálfsögðu hlýtur ykkur að vera ofarlega í huga, hvort námið auki svigrúm ykkar á vinnumarkaði. Árið 1998 vann ég að því með embættismönnum í menntamálaráðuneytinu að sannfæra umboðsmann alþingis um, að eininganám frá endurmenntunarstofnun HÍ jafngilti háskólanámi, en þess var krafist í auglýsingu, að umsækjandi um starf við ríkisútvarpið skyldi hafa lokið háskólanámi og var ráðið í það með vísan til þess, að sá, sem hlaut starfið hefði lokið rekstrar- og viðskiptanámi hér við endurmenntunarstofnun. Þetta töldu starfsmannasamtök útvarpsins og Blaðamannafélag Íslands of rúma túlkun og kvörtuðu til umboðsmanns alþingis.
Þar sem mér hefur hér verið tíðrætt um nauðsyn þess að nýta sér reynsluna af atvikum, sem stjórnsýslan geymir, ætla ég að ljúka máli mínu með því að rifja það upp, hvernig við í menntamálaráðuneytinu litum á nám á borð við ykkar í bréfi til umboðsmanns alþingis. Þar sagði meðal annars:
„Háskólanám er að taka miklum breytingum, en við mat á því hvað telst háskólanám verður að taka mið af starfsemi háskólastofnana á hverjum tíma. Aukin áhersla háskólastofnana á endurmenntun og símenntun leiðir af sér, að margir starfsmenn opinberra aðila og einkafyrirtækja leggja hart að sér við nám með vinnu í því skyni að efla þekkingu sína og hæfni. Er mikilvægt, að brugðist sé við slíkri viðleitni og góðu framtaki með jákvæðum hætti og sanngirni af hálfu vinnuveitenda. Á þetta ekki síst við um þá, sem hvetja til símenntunar og endurmenntunar, en menntamálaráðherra er í þeim hópi. Hefði það komið sem reiðarslag yfir marga, sem hafa nýtt sér þau námstilboð, sem eru fyrir hendi á háskólastigi, hér á landi og erlendis, ef umrædd auglýsing hefði verið túlkuð jafnþröngt og Blaðamannafélag Íslands og Starfsmannasamtök ríkisútvarpsins vilja. Með því móti hefðu þeir fjölmörgu, sem nýtt hafa sér námsframboð við eina af æðstu menntastofnunum landsins og stundað þar nám, sem metið er til eininga af stofnuninni sjálfri, verið útilokaðir frá því að keppa um [...] stöðu, sem auglýst var með þeim hætti sem varð tilefni kvörtunar málshefjenda til yðar. Á svo þrönga túlkun á hugtakinu háskólanám getur menntamálaráðuneytið með engu móti fallist.“
Og góðir áheyrendur, umboðsmaður alþingis taldi ekki ástæðu til athugasemda við þá túlkun menntamálaráðuneytisins að endurmenntun gæti talist til háskólanáms. Hann vildi hins vegar, að ráðuneytið hefði notað annað orðalag á auglýsingu sinni um starfið.
Tækifærin sem bíða ykkar með námið að baki eru mörg og þeim á aðeins eftir að fjölga. Ég segi enn á ný til hamingju og óska ykkur velfarnaðar í störfum ykkar.