27.6.2006 21:38

Þriðjudagur, 27. 06. 06.

Traustvekjandi og ánægjulegt var að fylgjast með því, að vel hefði tekist að virkja öflugt lið á skjótan hátt til að bregðast við hættunni á Eskifirði vegna klór-eiturgufanna í sundlauginni, þegar flytja þurfti nálægt 30 manns undir læknishendur. Enn á ný sannaði samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð gildi sitt á stundum sem þessari og er ómetanlegt, að þar skuli björgunarsveitir, lögregla, slökkvilið og landhelgisgæsla starfa saman undir einu þaki og á örskömmum tíma sé unnt að samhæfa krafta, þekkingu, þjálfun og tæki þessa öfluga liðs auk þess sem heilbrigðisstarfsmenn komu inn í miðstöðina og stofnanir þeirra um land allt en þó einkum fyrir austan brugðust rétt og vel við hættunni.

Var klukkan 15.30 í Þjóðmenningarhúsinu og tók þátt í athöfn vegna undirritunar á samningi lögregluskóla Íslands og Noregs við CEPOL, samstarfsvettvang evrópskra lögregluskóla, en aldrei fyrr hafa lögregluskólar utan Evrópusambandsins fengið aðild að þessu samstarfi.