7.6.2006 23:49

Miðvikudagur, 07. 06. 06.

Sat kvöldverð í boði Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra í Perlunni fyrir starfsbræður hans frá Eystrasaltsríkjunum. Halldór flutti ræðu og mæltist vel. Göran Persson, forsætisráðherra Svía, þakkaði fyrir hönd gesta og fyrri hluti ræðu hans var einlægt lof um Halldór í tilefni þess, að hann væri að hætta sem forsætisráðherra. Við mitt borð höfðu erlendir gestir á orði, að slíkt hrós byggðist aðeins á góðum og löngum kynnum.

Ég sé, að www.andriki.is tekur upp hanska minn gagnvart Fréttablaðinu vegna ómaklegra skrifa Jóhanns Haukssonar, þingfréttaritara blaðsins, um föður minn og vegna heilaspuna Jóhanns í tilefni af brotthvarfi Davíðs Oddssonar úr stjórmálum, en ég vakti máls á þessum spuna hér á síðunni í gær.

Stjórnmálaskrif af þessu tagi eru marklaus og er einkennilegt, að þau tíðkist í blaði, sem er borið inn á heimili fólks, án þess að nokkur æski þess að fá blaðið. Ég er viss um, að um það verður spurt fyrr en síðar, hvað vörn fólk hefur gegn því, að fá blöð með áreiti af þessu eða öðru tagi séu borin inn á heimili þess að því forspurðu. Unnt er að setja merki í símaskrá til að sporna gegn ónæði í síma. Hverng er unnt að verjast því, að blöðum sé stungið inn um lúguna í óþökk heimilismanna?

PPGrein