9.6.2006 21:31

Föstudagur, 09. 06. 06.

Var klukkan 14.00 í flugskýli Landhelgisgæslu Íslands (LHG) á Reykjavíkurflugvelli og ritaði undir samning við norska fyrirtækið AirLift um leigu á SuperPuma þyrlu frá og með 1. október nk. í að minnsta kosti eitt ár.

Með þessum samningi er stigið fyrsta skrefið í átt að því að stórefla þyrlubjörgunarsveit LHG. Innan skamms verður gengið frá samningi um Dauphin þyrlu frá og með 1. október, þannig að gæslan ráði yfir fjórum þyrlum, þegar varnarliðsþyrlurnar hverfa, tveimur SuperPuma og tveimur Dauphin. Markmiðið er hins vegar að gæslan ráði yfir þremur þyrlum, sem eru sambærilegar við SuperPuma þyrluna auk þess sem ég tel skynsamlegt, að  þyrlurnar verði fjórar og hin fjórða verði á borð við Dauphin. Tillögu um hina varanlegu lausn hef ég í hyggju að leggja fram nú í júní.

Landhelgisgæslan er að ganga í endurnýjun lífdaga með nýjum lögum, nýjum höfuðstöðvum við Skógarhlíð, nýju varðskipi, nýrri flugvél og nýjum þyrlum. Þá hefur LHG tekið að sér rekstur Vaktstöðvar siglinga, sem einnig er í Skógarhlíð. Flugdeild LHG hefur verið endurskipulögð og er Geirþrúður Alfreðsdóttir, flugmaður, nýr flugrekstrarstjóri.

Ég heyrði í fréttum í kvöld, að rannsóknarnefnd sjóslysa teldi, að virkja hefði átt samhæfingarmiðstöðina í Skógarhlíð við slysið á Viðeyjarsundi í fyrra. Nú hefur verið búið svo um hnúta með flutningi LHG og öllu skipulagi í Skógarhlíð, að samhæfingarmiðstöðin er virkjuð, hvort heldur slys verða á sjó eða landi og fulltrúar allra viðbragðs- og björgunaraðila eiga þar snurðulaus samskipti.

Tugir frumvarpa frá ríkisstjórninni urðu að lögum síðustu daga þingsins. Hið einkennilega er, að minna er rætt um þau öll og áhrif þeirra en tvö frumvörp, sem ekki urðu að lögum, það er um nýsköpunarmál og ríkisútvarpið. Það var ekki viljaleysi hjá stjórnarliðum, sem leiddi til þess, að þessi tvö frumvörp voru ekki lögfest. Stjórnarandstaðan mátti ekki heyra á það minnst, samþykkti að öll önnur mál næðu fram, svo framarlega sem þessi tvö biðu. Síðan talar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hneyksluð um óvissu í málum ríkisútvarpsins!