5.6.2006 21:31

Mánudagur, 05. 06. 06.

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, efndi til blaðamannafundar í Þingvallabænum kl. 21.00 í kvöld og tilkynnti, að hann mundi leggja til á miðstjórnarfundi flokks síns síðar í vikunni, að flokksþingi yrði flýtt í haust og hann mundi þar láta af formennsku auk þess mundi hann hverfa úr stól forsætisráðherra samkvæmt nánara samkomulagi við Geir H. Haarde, sem yrði forsætisráðherra. Framsóknarmenn vildu, að ríkisstjórnin starfaði út kjörtímabilið undir nýjum forsætisráðherra.

Atburðarásin, sem Halldór kynnti, er á annan veg en lýst hefur verið, meðal annars í Morgunblaðinu, eins og sjá má í pistli, sem ég ritaði í dag. Þar var talið, að á miðstjórnarfundinum í vikunni yrði Finnur Ingólfsson valinn formaður Framsóknarflokksins og Siv Friðleifsdóttir varaformaður. Engir sérstakir heimildarmenn voru fyrir þessum fréttum en þær kölluðu fram mótmæli innan Framsóknarflokksins og hvatningu um, að ný forysta flokksins yrði valin á flokksþingi. Halldór Ásgrímsson hefur nú tekið undir þau sjónarmið og jafnframt tekið skjótt af skarið í því skyni að binda enda á frekari óróa innan flokks síns.

Ég fylgdist með NFS til að fá fréttir af blaðamannfundi Halldórs og voru þær fluttar beint en án myndar. Á meðan ég beið fréttarinnar rakst ég á endursýndan þátt, þar sem þau Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður vinstri/grænna, Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og Ólafur Teitur Guðnason, blaðamaður, ræddu úrslit sveitarstjómarkosninganna. Ólafur Teitur hrakti með skýrum rökum þá kenningu, sem ekki síst setti svip á túlkun NFS, að kosningaúrslitin væru vinstri sveifla - það stæðist einfaldlega ekki, úr því að Sjálfstæðisflokkurinn hefði aukið fylgi sitt. Þá væri ljóst, að fyrir Samfylkinguna væri þetta versta niðurstaða hennar í Reykjavík.