6.6.2006 19:10

Þriðjudagur, 06. 06. 06.

Síðasti borgarstjórnarfundur fráfarandi borgarstjórnar var í dag. Þar sá Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri til að þusa hvað eftir annað um þau ummæli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að sjálfsagt væri að varðveita fundarherbergi þeirra Ronalds Reagans og Mikhaíls Gorbatsjovs í Höfða í upprunalegri mynd og því með málverki af föður mínum, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lét fjarlægja úr fundarherberginu árið 1994, skömmu eftir að hún varð borgarstjóri. Steinunn Valdís hélt einnig áfram andmælum sínum við þá tillögu Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að reist verði stytta af borgarskáldinu Tómasi Guðmundssyni - en Steinunn Valdís er andvíg styttunni, vegna þess að ekki séu nógu margar styttur af konum í borginni. Hvers vegna skyldi R-listinn ekki hafa bætt úr því á 12 árum?

Ég flutti stutta ræðu í lok fundarins og þakkaði samstarf innan borgarstjórnar. Lét þess getið, að vegna breytinga á högum mínum myndu hefði ég ekki getað setið í nefndum og ráði eins og ég hefði viljað en leitast við að sækja fundi borgarstjórnar. Mér þættu umræður þar ólíkar því, sem gerðist á alþingi, vegna þess hve þær væru oft persónulegar. Fyrir utan að starfa í þágu borgarbúa að málefnum þeirra hefði ég haft þau pólitísku markmið með þátttöku í borgarstjórn að brjóta R-listann á bak aftur, hann hefði splundrast í frumeindir, og að koma sjálfstæðismönnum í meirihluta, það hefði einnig tekist.

Ég hef fylgst með fréttum af Framsóknarflokknum í framhjáhlaupi og heyrði, að Finnur Ingólfsson væri orðinn afhuga þátttöku í stjórnmálum að nýju. Í Spegli  RÚV voru tveir blaðamenn kallaðir til skrafs og ráðagerða um Framsóknarflokkinn og var Jóhann Hauksson, pólitískur blaðamaður Fréttablaðsins, annar þeirra. Hann hóf mál sitt á því að bera saman afsögn Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar, lýsti skipulegri framgöngu Davíðs, fundi í Valhöll, þar sem allir hefðu verið á einu máli nema einn. Ég velti fyrir mér eitt augnablik, hver það hefði verið, af því að ég mundi ekki eftir neinum. Þá hélt Jóhann áfram og sagði mig hafa gengið fyrstan út af fundinum og taldi það til marks um andstöðu mína. Ég hef áður undrast fréttaskýringar og ályktanir Jóhanns Haukssonar - ályktun hans í Speglinum er aðeins unnt að kenna við heilaspuna. Ef sú staðreynd, að ég gangi fyrstur af fundi er að mati Jóhanns Haukssonar til marks um andstöðu við það, sem á fundinum gerist, lýsir það ótrúlegu metnaðarleysi í blaðamennsku.