15.6.2006 22:01

Fimmtudagur, 15. 06. 06.

Ríkisstjórnin kom saman klukkan 11.00 í ráðherrabústaðnum og var það síðasti fundur hennar undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar.

Klukkan 12.00 hófst síðan ríkisráðsfundur á Bessastöðum og var þar leitað endurstaðfestingar á tillögum, sem forseti hafði samþykkt utan ríkisráðsins. Fundinum var slitið að því loknu.

Við svo búið var settur nýr ríkisráðsfundur og þar baðst Halldór lausnar sem forsætisráðherra og gerði tillögu um Geir H. Haarde í sinn stað, auk þess sem hann baðst lausnar fyrir þau Jón Kristjánsson félagsmálaráðherra og Sigríði Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra.

Gert var hlé á fundinum og snæddur hádegisverður. Eftir hann var fundi fram haldið og þá komu þau Jón Sigurðsson verðandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Jónína Bjartmarz verðandi umhverfisráðherra og Magnús Stefánsson verðandi félagsmálaráðherra á fundinn, en Halldór, Jón og Sigríður Anna hurfu af vettvangi. Geir H. Haarde gerði tillögu um skipan þeirra í ríkisstjórnina og skipan Valgerðar Sverrisdóttur sem utanríkisráðherra og rituðu þau undir drengskaparheit.

Klukkan var um 15. 30 þegar fundarhöldum og formlegheitum var lokið og loks var tekin mynd af nýrri ríkisstjórn á tröppum Bessastaða.

Í dag rita þeir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, og Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, um Fréttablaðið, Jóhann Hauksson og bréf mitt í Blaðið. Ég dreg þá ályktun af grein Marðar, að hann hafi ekki kynnt sér málið, því að hann óskar eftir, að bréf mitt verði birt - en það hefur verið hér á síðunni frá 2. júní og er síður en svo nokkurt leyndarmál. Annars er Mörður almennt miður sín yfir þróun Fréttablaðsins. Guðmundur Ólafsson nálgast þetta mál þó á frumlegasta hátt til þessa, og rökstyður niðurstöðu sína með dómi, sem Hjördís Hákonardóttir, þáverandi héraðsdómari, felldi í máli Guðjóns Andréssonar gegn dómsmálaráðherranum Þorsteini Pálssyni, Guðjóni í vil. Vegna þessa dóms hafi ég ekki skipað Hjördísi hæstaréttardómara, við Þorsteinn hefðum einfaldlega ofsótt hana og við séum því einnig að ofsækja Jóhann Hauksson. Ég klóra mér aðeins undrandi í höfðinu, þegar ég les þetta. Hvað er eiginlega á seyði? Við hvaða kviku hef ég komið?

Ritaði grein í Morgunblaðið og svaraði Ragnari Aðalsteinssyni hrl.