12.6.2006 20:17

Mánudagur 12. 06. 06.

Dag hvern eru rituð hundruð þúsunda bréfa til ritstjóra blaða um heim allan, þar sem lesendur lýsa skoðunum sínum á því, sem birtist í blaði ritstjórans og koma athugasemdum sínum á framfæri.

Á dögunum ritaði ég Þorsteini Pálssyni, ritstjóra Fréttablaðsins, bréf vegna þess, sem í blaði hans birtist og sendi auk þess afrit til Jóhanns Haukssonar, blaðamanns, en í bréfinu gerði ég rökstudda athugasemd við skrif hans.

Þetta litla bréf mitt hefur orðið Jóhanni Haukssyni tilefni til að láta í veðri vaka, að sér hafi vegna þess verið hrókerað innan ritstjórnar Fréttablaðsins, en hrókeringin leiddi síðan til þess, að Jóhann hætti þar störfum. Þorsteinn Pálsson segir (http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1207031) þessi ummæli Jóhanns um áhrif bréfs míns ekki eiga við nein rök að styðjast.

Hallgrímur Helgason rithöfundur sá ástæðu til að skrifa 12. júní leikþátt í Fréttablaðið af þessu sama tilefni og lét eins og við Þorsteinn hefðum rætt saman í síma, sem er hugarburður höfundarins. Um hlut Hallgríms segir í yfirlýsingu Þorsteins Pálssonar: „Vegna greinar Hallgríms Helgasonar rithöfundar í Fréttablaðinu í gær (svo!) um þetta mál get ég upplýst að fréttaritstjóri Fréttablaðsins greindi honum frá staðreyndum þessa máls áður en greinin fór í birtingu. Hallgrímur Helgason rithöfundur ver svo heiður sinn sjálfur.“

Allir fjölmiðlar hafa verið með fréttir um málið.

Þetta er einkennilegur fréttaspuni um atvik, sem alltaf eru að gerast á öllum ritstjórnum, að mönnum er falið að sinna nýjum verkefnum. Þeir ráða því síðan auðvitað sjálfir, hvort þeir taka að sér þessi verkefni eða kjósa að róa á önnur mið. Að ég hafi mælst til breytinga á ritstjórn Fréttablaðsins er í einu orði sagt fráleitt. Ég vil hins vegar eiga sama rétt og aðrir til að skrifa ritstjóra blaðsins bréf, ef mér þykir tilefni til þess. Ég hefði kannski losað okkur undan þessum fréttaspuna, ef ég hefði hvorki sent Jóhanni afrit af bréfinu né birt það hér á síðunni.