29.6.2006 9:16

Fimmtudagur, 29. 06. 06.

Klukkan 11.30 efndi ég til blaðamannafundar í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og kynnti þar matsskýrslu tveggja sérfræðinga Evrópusambandsins um hryðjuverkavarnir á Íslandi, en þar kemur fram tillaga um, að innan embættis ríkislögreglustjóra verði stofnuð sérstök þjóðaröryggisdeild á grundvelli sérstakra laga og undir eftirliti dómara og alþingis.

Ég bendi áhugasömum lesendum síðu minnar að lesa fréttatilkynningu, sem ég lagði fram á fundinum og skýrsluna, sem er á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Ég hefði haldið, að Össur Skarphéðinsson myndi gefa sér tíma til að lesa þessi gögn, áður en hann ræddi þau á vefsíðu sinni en þar segir meðal annars:

„Ég stend svo agndofa gagnvart þeim parti fréttatilkynningarinnar, þar greint er frá tillögu um að stofna sérstaka þjóðaröryggisdeild við embætti ríkislögreglustjóra með 25-30 manna starfsliði! Var ekki verið að boða niðurskurð í ríkisfjármálum? Eru menn gengnir af göflunum? Var ekki verið að setja á stofn umdeilda greiningardeild, sem einmitt átti að vinna gegn hryðjuverkum og landráðum? Eitthvað kostar hún."

Hvar er tekið fram í fréttatilkynningunni, að 25 til 30 manns eigi að starfa við þessa deild? Ég sé það hvergi í henni og raunar er engin tala um starfsmannafjölda nefnd í matsskýrslunni. Dr. Niels Bracke, lögfræðingur á aðalskrifstofu ráðherraráðs Evrópusambandsins, nefndi hins vegar þessa tölu í samtali við fréttamenn, en hann er ekki að tala um nýja starfsmenn heldur þá, sem sinna þyrftu verkefnum á grundvelli nýrra laga, yrðu þau sett. Vafalaust kalla ný verkefni lögreglu á fjölgun starfsmanna og það er nýjung að heyra það frá stjórnarandstöðunni, að lögreglumenn séu orðnir nógu margir. Hvernig væri, að Össur bæri málið undi Jóhönnu Sigurðardóttur, flokkssystur sína? Hún hefur ekki verið þessarar skoðunar fram að þessu. Greiningardeild lögreglunnar kallar ekki á nýja starfsmenn heldur áherslubreytingar í störfum innan lögreglunnar. Össur veit mæta vel, að frumvarpinu með ákvæðum um greiningardeildina fylgdi kostnaðarmat og ég man ekki eftir því, að nokkur þingmaður kvartaði undan því, að útgjöld væru of mikil samkvæmt frumvarpinu - raunar snerta þau helst flutning verkefna til embætta sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins. Óvild Össurar í garð ríkislögreglustjóra og embættis hans er ekki ný af nálinni, en hún er Össuri ekki til neins sóma, ég hef aldrei heyrt nein haldbær rök fyrir henni.

Eins og jafnan, þegar ég stend að kynningu af þessum toga, finnst mér forvitnilegt, að fylgjast með því, hvernig fjölmiðlar taka á málum. Eins og fram kemur í fréttatilkynningu ráðuneytisins er þar ekki tekin nein afstaða til matsskýrslunnar, en hins vegar er sagt frá því, að ég hafi skipað nefnd til að vinna að framkvæmd þeirra ákvæða í nýsamþykktum lögum um lögreglumál, sem snúast um greiningarhlutverk lögreglunnar og við það starf verði tekið mið af matsskýrslunni.

Ég lagði áherslu á í máli mínu, að skýrslan væri lögð fram til umræðu og til að menn áttuðu sig á því, hvar við Íslendingar stæðum að þessu leyti. Nú yrði að fara yfir efni skýrslunnar og ræða það, vissulega kynni að vera tími til þess fyrir 1. október að undirbúa frumvarp til laga eins og skýrsluhöfundar telja skynsamlegt, en ég hefði ekki tekið af skarið um það og ekki lagt fram neinar tillögur í því efni- þó myndi ekkert gerast nema ný lög yrðu samþykkt.

Í frásögn á visir.is var sagt: Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, vonast til að hægt verði að ræða á næsta þingi frumvarp um stofnun þjóðaröryggisdeildar - eins konar leyniþjónustu.

Í Spegli hljóðvarps ríkisins var sagt, að ég væri að skapa starfsgrundvöll fyrir James Bond, sem mundi starfa í þjónustu hans hátignar Björn Bjarnasonar.

Á ruv.is birtist þessi texti:

„Dómsmálaráðherra vill setja á stofn Þjóðaröryggisdeild undir embætti ríkislögreglustjóra. Hún mun hafa það hlutverk að koma í veg fyrir hryðjuverk og skipulagða glæpastarfssemi með forvirkum rannsóknarúrræðum. Í dag var kynnt skýrsla sérfræðinga Evrópusambandsins um varnir gegn hryðjuverkum þar sem þetta er lagt til.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, kynnti skýrsluna í morgun. Lagt er til að á milli 25 og 30 manns einbeiti sér að því að rannsaka hættur á hugsanlegum hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfssemi og fái til þess víðtækar rannsóknarheimildir. Eins og það er orðað í skýrslunni verða þeim falin svokölluð forvirk rannsóknarúrræði. Það þýðir að starfssvið deildarinnar er að rannsaka glæpi sem hugsanlega stendur til að fremja og koma í veg fyrir þá. Gert er ráð fyrir úrræðin séu meðal annarra, hleranir og eftirlit með einstaklingum en aðallega munu rannsakendur beita sér í því að skoða gagnasöfn lögreglustofnana og annarra stjórnarstofnana. Deildin á að starfa með leynd en mun lúta aðhaldi dómstóla og Alþingis.

Aðspurður um þörfina fyrir svona eftirlitsstofnun segir Björn Bjarnason að þetta sé mat sérfræðinganna og auðvitað beri að taka mark á þeim. Hann segir að til þess að íslensk stjórnvöld séu gjaldgeng í samstarfi við aðrar þjóðir í öryggismálum verði að setja þessa deild á stofn. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, skilur hins vegar ekki þörfina fyrir svona stofnun.

Feitaletrið er frá mér komið. Ég hef ekki tekið af skarið um það, hvernig best verði staðið að því að framkvæma tillögur sérfræðinganna, þeir nefna engan starfsmannafjölda í skýrslu sinni, rannsóknir eiga stuðla að því, að ekki sé unnið glæpaverk. deildin mundi starfa á grundvelli sérstakra laga, sem að sjálfsögðu yrðu ekki leyndarmál, þótt hitt liggi í hlutarins eðli, að leynd hvíldi yfir sumum störfum deildarinnar. Er Steingrímur J. betur fær um að dæma þörfina á slíkri stofnun en hinir erlendu, hlutlausu sérfræðingar? Hver eru rök Steingríms J.?

Í inngangi Kastljóss var endurtekið, að ég vildi stofna þjóðaröryggisdeild. Í þættinum leiðrétti ég þessa fullyrðingu og sagði, að á þessu stigi væri ég að kynna þessa skýrslu og benda, að vildum við Íslendingar vera gjaldgengir á þessu sviði öryggismála yrðum við að mati þessara tveggja sérfræðinga að setja sérstök lög um lögreglustarfsemi af þeim toga, sem lýst væri í skýrslunni. Það væri á ábyrgð mína að vekja máls á þessari staðreynd, rökræða hana og kynna, ég mundi síðan taka afstöðu til málsins, að loknum slíkum umræðum.

Í fréttum sjónvarpsins var sagt, að ég hefði ásamt utanríkisráðherra falið starfshópi að semja lög um leyniþjónustu. Ég veit ekki, hvaðan þetta kemur, ekki frá mér, því að ég hef ekki staðið að neinu slíku með utanríkisráðherra.