15.4.2012 22:41

Sunnudagur 15. 04. 12

Í kvöld var sýndur þáttur um Sigfús Halldórsson í sjónvarpinu sem Andrés Indriðason tók saman úr gömlum þáttum. Þátturinn minnti á hve mikilvægt er að sjónvarpið sé spegill samtíðarinnar í menningu. Fróðlegt væri að sjá tölfræði frá RÚV sem sýndi hlutfall slíks efnis í dagskrá samtímans miðað við það sem áður var. Hér skal ekki fullyrt neitt um hvað slík tölfræði sýndi en tilfinningin segir að erfitt verði þegar fram líða stundir að draga upp jafn heildstæða mynd úr gömlu efni af einhverjum listamanni sem gengur meðal okkar núna og þarna var gert af Sigfúsi.

Ég fer varlega í fullyrðingar til að kalla ekki yfir mig reiðilestur úr Efstaleiti. Bergþór Ólason birti 11. apríl í Morgunblaðinu niðurstöðu í skoðanakönnun á sínum vegum. Bergþór sagði.

„ Á dögunum keypti ég því spurningu í spurningavagn MMR. Var þar spurt „Hversu eðlilegt eða óeðlilegt finnst þér að stjórnendur umræðuþátta hjá Ríkisútvarpinu stýri umræðum um pólitísk málefni, sem þeir hafa sjálfir áður tjáð sig um opinberlega á öðrum vettvangi?“ Niðurstöðurnar urðu afar afgerandi. Spurðir voru 855 einstaklingar og 82,2% tóku afstöðu. 34% sögðust telja þetta háttalag mjög óeðlilegt og 32,1% sögðust telja það frekar óeðlilegt. Á hinn bóginn sögðust 7,7% telja það mjög eðililegt en 7,4% frekar eðlilegt. 18,8% tóku svarmöguleikann „bæði og“.

Þessar niðurstöður eru mjög afgerandi. Yfirgnæfandi meirihluti, eða samtals rúm 66%, telur óeðlilegt, eða mjög óeðlilegt, að stjórnendur umræðuþátta RÚV stýri umræðum um pólitísk málefni, sem þeir hafa sjálfir tjáð sig opinberlega um annars staðar. Þetta hlýtur að auka enn alvarleika þeirrar spurningar hversu lengi núverandi yfirstjórn RÚV hyggst láta þetta viðgangast.“

Páll Magnússon útvarpsstjóri bregst við á gamalkunnan hátt þegar Morgunblaðið spyr hann álits á niðurstöðum könnunar MMR, það er með útúrsnúningi og hroka. Páll segir spurninguna reista á rangri forsendu, hún geti ekki átt við neinn starfsmann RÚV. Augljóst er að málið snýst fyrst og síðast um Egil Helgason. Hér á þessari síðu hafa birst fjölmörg dæmi um hlutdrægni hans.

Þá leggur Páll lykkju á leið sína og ræðst á alþingi en tveir þingmenn leyfðu sér að hafa annan skilning á niðurstöðu könnunar MMR en útvarpsstjóri. Segir Páll af því tilefni:  „Aldrei hefur álit fólks á alþingi og alþingismönnum risið lægra heldur en í dag.“ Þingmönnum sæmi ekki að gagnrýna  RÚV sem njóti yfirburðartrausts á meðal landsmanna.

Í dag birti ég pistil á Evrópuvaktinni og svaraði rógi Björns Vals Gíslasyni, þigflokksformanni VG, um sjálfstæðismenn vegna Icesave.