12.4.2012 22:25

Fimmtudagur 12. 04. 12

Utanríkismálanefnd alþingis sat á fjögurra tíma fundi í kvöld og ræddi til hvaða ráða skyldi gripið af Íslands hálfu vegna þess að framkvæmdastjórn ESB ætlar að gerast aðili að Icesave-málinu gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum og slást þannig í lið með Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Þegar þetta er ritað hefur ekkert verið sagt opinberlega frá því hvað gerðist á fundinum en RÚV gefur til kynna að stjórnarsinnar hafi deilt á fundinum.

Vissulega er mikilvægt að unnt sé að halda fundi í utanríkismálanefnd á þann veg að trúnaður ríki milli manna um það sem þar gerist. Þessi trúnaður nær þó ekki til þess að menn lýsi þeirri skoðun sem þeir hafa sjálfir kynnt á fundinum. Vegna fréttanna af meðalgöngusök ESB í Icesave-málinu hafa Össur Skarphéðinsson og Árni Þór Sigurðsson brotið trúnaðarreglurnar með því að vitna til þess sem hinn breski lögmaður sem ver málstað Íslands í EFTA-dómstólnum sagði á fundi með utanríkismálanefnd.

Þessar frásagnir forráðamanna ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum hljóta að leiða til þess að aðrir sem hafa setið fundi utanríkismálanefndar um Icesave-málið og málaferlin geti skýrt frá því sem þeir hafa orðið áskynja í nefndinni.

ESA hafði samráð við framkvæmdastjórn ESB áður en ákveðið var að fara með Icesave-málið fyrir EFTA-dómstólinn. Peter Stano, talsmaður stækkunarstjóra ESB, sagði í samtali við Stöð 2 í kvöld að framkvæmdastjórnin vildi verja „þörfina á skýrleika varðandi skyldur Íslands á sviði fjármálaþjónustu, auk skýrleika og samkvæmni í lögum ESB og EES og lagalegar skyldur EFTA-ríkja og ESB-ríkja“. Slíkur skýrleiki væri mikilvægur til að viðhalda trausti á ESB-reglum um innistæðutryggingar, innri markaðinn og loks á fjármálastöðugleika í Evrópu. Það væri mikilvægt að hafa í huga að þetta mál fyrir EFTA-dómstólnum tengdist á engan hátt umsókn Íslands að ESB.