11.4.2012 23:20

Miðvikudagur 11. 04. 12

Óperan Manon eftir Jules Massenet var sýnd öðru sinni í Kringlubíói í kvöld, frumsýning hér var beint úr Metrópólitan-óperunni í New York laugardaginn 7. apríl Anna Netrebko syngur hlutverk Manon meistaralega. Sýningin var glæsileg, ég hreifst þó ekki af tónlistinni.

Í kynningu frá Metrópólitan á næstu verkefnum sagði frá því að í vor væri væntanleg mynd um gerð Niflungahrings Wagners en óperurnar fjórar hafa allar verið sýndar á þessu leikári og í fyrra en verða fluttar í heild á einni viku undir lok þessa mánaðar og í maí. Í tilefni af því hefur verið gerð sérstök kvikmynd um uppsetninguna.

Af kynningunni mátti ráða að meðal þessa fyrsta sem kæmi fram um sögu uppsetningarinnar væri héðan frá Íslandi en Robert Lepage sem hannaði sýninguna og réð stjórnaði henni lagði leið sína til Íslands þegar hann mótaði hugmynd sína um sviðsmyndina en 45 tonna „vélmenni“ er uppistaða hennar og óttuðust flytjendur í fyrstu að eiga öryggi sitt undir því komið.

Lepage hefur sagt um Niflungahringinn að hann sé ekki aðeins saga eða röð af óperum heldur sé hann „kosmos“ það er eigin alheimur. Lepage kom hingað til að kynnast kröftunum sem móta þennan heim ef marka má það sem sýnt var af kvikmyndinni um gerð hans á Hringnum.