23.4.2012 21:30

Mánudagur 23. 04. 12

Það var engu líkara en sjónvarpsmennirnir Þorbjörn Þórðarson Stöð 2 og Sigmar Guðmundsson Kastljósi vissu ekki af því að landsdómur sýknaði Geir H. Haarde af öllum efnislegum ákærum vegna bankahrunsins í dag þegar þeir ræddu við hann í kvöld. Þeir spurðu eins og óljóst væri um ábyrgð hans þótt fyrir lægju 415 blaðsíður um sýknu hans nema vegna þess að hann boðaði ekki ríkisstjórnina til fundar um mikilvæg stjórnarmálefni. Í því efni fór hann að venju sem hér hefur ríkt síðan 1920.

Sigmar Guðmundsson var öllu æstari en Þorbjörn og meira í mun að snúa málinu á verri veg fyrir Geir sérstaklega þegar hann spurði hvað eftir hvernig Geir dytti í hug að krefjast afsagnar Steingríms J. Sigfússonar og Atla Gíslasonar úr því að hann hefði ekki sjálfur sagt af sér vegna bankahrunsins! Hlutur Geirs vegna þess hafði einmitt verið til meðferðar og ákæran leiddi til sýknu, hann reyndist ekki sekur. Geir brást raunar þannig við bankahruninu að til fyrirmyndar þykir í mörgum löndum þar sem skuldakreppa og bankavandi sliga þjóðirnar.

Geir sýndi Þorbirni og Sigmari ótrúlegt langlundargeð með því að sitja undir spurningum þeirra og stundum varla fá tækifæri til að svara þeim. Erfitt er að átta sig á því hvað svona fréttamennska á að þýða, að látið sé eins og engu skipti að dómur sé fallin og viðmælandinn hafi verið sýknaður.

Ég skrifaði pistil um málið hér á síðuna í dag. Þar undra ég mig á því að Geir hafi verið sakfelldur fyrir að kalla ekki saman ríkisstjórnarfund en samt sýknaður af öllum efnisþáttum málsins. Í því sambandi snýst boðun ríkisstjórnarfundar aðeins um aukaatriði.